132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:16]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisumræða hér um flugvallarmálin. Spurst er fyrir um það hvenær áformað sé að hefja framkvæmdir við lengingu flugbrautarinnar á Akureyri. Ráðherra vísar í þarfagreiningu. Ég verð að segja að þarfagreiningar hefðu betur komið til miklu fyrr því að kjördæmapot hér á þinginu hefur einkennt flugvallaruppbyggingu hér á landi, a.m.k. hér áður fyrr. (Gripið fram í.)

Það var byggður upp fullkominn flugvöllur á Húsavík. Ég sat í samgöngunefnd þegar verið var að takast á um það, setja á hann fullkominn ljósabúnað og ég veit ekki hvað og hvað. Ekki var fyrr búið að byggja upp flugvöllinn á Húsavík en flug þangað var lagt niður og það hefur ekkert verið flogið á Húsavík síðan.

Ég er alveg sannfærð um að ef menn hefðu ekki þrýst svona mikið á þennan flugvöll á Húsavík þá væri löngu búið að lengja flugbrautirnar á Akureyri. Þannig að ég fagna því að nú skuli menn hafa hér vitleg vinnubrögð, styðjast við þarfagreiningu og sinna þessum málum af einhverju viti.