132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:20]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún er orðin býsna góð í þágu flugsins, ekki síst innanlandsflugsins. Það er alveg auðheyrt að innanlandsflugið, og sú stefna sem ég hef sem samgönguráðherra haft uppi í þeim efnum, nýtur mikils stuðnings hér á Alþingi og er ég ánægður með það.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kom með athyglisvert innlegg hér, og ekki í fyrsta skipti, þess efnis að úr því að hægt sé að reka eina flugbraut með fullnægjandi hætti í Eyjafirði, Akureyrarflugvöll, þá hljóti það að vera hægt hér í Reykjavík.

Ég minnist þess að það var fundur á Akureyri, sem var reyndar fjarfundur bæði í Reykjavík og á Akureyri, þar sem verið var að fjalla um þessi mál á sínum tíma. Þá varpaði hv. þingmaður þessari umræðu fram en hún var í tengslum við endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar, deilur út af því. Ég hélt satt að segja að hv. þingmaður hefði fengið þær upplýsingar þá að veðuraðstæður og landslag allt væri með þeim hætti að ein flugbraut á Akureyri dugar býsna vel. Ástæðurnar eru auðvitað landslagið og veðurfar og vindar á þessu svæði, annars vegar á Akureyri og svo hins vegar hér í Reykjavík, þar sem verða að vera fleiri en ein braut. Í dag eru þær þrjár á Reykjavíkurflugvelli til að nýtingin sé sem mest á flugvellinum.

Þannig að það er ekki um það að ræða að mati sérfræðinga í flugmálum að ein flugbraut dugi hér á höfuðborgarsvæðinu. En að öðru leyti þakka ég fyrir þessa umræðu. KEA hefur ekki komið í samgönguráðuneytið til að bjóðast til að lengja flugbrautina (Forseti hringir.) á Akureyri.