132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gildistími ökuskírteina.

548. mál
[13:26]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir athyglisverða fyrirspurn. En hann spyr:

„Telur ráðherra koma til greina að breyta ákvæðum 48 gr. reglugerðar nr. 501/1997, um ökuskírteini, í þá veru að gildistími ökuskírteina fólks sem er 80 ára og eldra verði sá sami og 72–80 ára fólks, þ.e. tvö ár.“

Svar mitt er svohljóðandi: Samkvæmt 6. mgr. 48. gr. reglugerðar um ökuskírteini, nr. 501/1997, skal gildistími ökuskírteinis vera sem hér segir eftir að umsækjandi hefur náð 70 ára aldri. Hann er fjögur ár fyrir 70 ára umsækjanda, þrjú ár fyrir 71 árs umsækjanda, tvö ár fyrir umsækjanda á aldrinum 72 til 79 ára og eitt ár fyrir þann sem er 80 ára eða eldri.

Þessar reglur eru samhljóða dönskum og norskum reglum. Í Noregi þarf ökumaður þó ekki að sækja um endurnýjun ökuskírteinis en skal á umræddum tímamörkum fá vottorð læknis sem hann geymir með ökuskírteini sínu.

Ekki er að finna nein ákvæði um þessi atriði í EES-gerðum sem innleiddar hafa verið um ökuskírteini. Hverju aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er í sjálfsvald sett að setja slíkar reglur. Hvorki hér á landi né í Danmörku eða Noregi hefur það verið rannsakað hvort rök séu til að endurskoða umrædd ákvæði 48. gr. reglugerðar um ökuskírteini. Það mun hins vegar hafa verið gert í Finnlandi og Svíþjóð. Slíkar rannsóknir miða að því að leiða í ljós hver áhrif aldur hefur á hæfni manna til að stjórna vélknúnu ökutæki með tilliti til hrörnunar almennt og með tilliti til sérstakra sjúkdóma sem einkum sækja á eldra fólk.

Fyrirspurn hv. þm. Jóns Gunnarssonar lýtur að því að breyta reglum þannig að þeir sem eru 80 ára og eldri sitji við sama borð og þeir sem eru 72 til 79 ára, þ.e. megi endurnýja ökuskírteini sitt eftir tvö ár í stað eins svo sem nú er.

Ég tel ekki efni til að gera þessa breytingu á reglugerð um ökuskírteini nema að undangenginni rannsókn. Ég tel fulla ástæðu til að láta slíka athugun fara fram. Í því tilviki er miðað við að skoða málið annars vegar með tilliti til umferðaröryggis og hins vegar með tilliti til þess að ökumenn þurfi ekki aldurs vegna að lúta strangari reglum en aðrir umfram það sem nauðsynlegt er.

Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að það sé full ástæða til að fara yfir málið og skoða að undangengnum rannsóknum hvort ekki sé eðlilegt að gera hér breytingar. Ég vil endurtaka þakkir til hv. þingmanns fyrir athyglisverða fyrirspurn sem samgönguráðuneytið mun taka til sérstakrar skoðunar.