132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gildistími ökuskírteina.

548. mál
[13:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt á þessari stundu að fara ofan í einstök ákvæði þessara reglna eða skýra það nánar út sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. En ég vil af þessu tilefni segja að fara þarf mjög vandlega yfir alla þessa þætti. Það er auðvitað alveg ljóst að mjög miklu máli skiptir að handhafar ökuskírteinis uppfylli allar reglur um heilbrigði og möguleika til að geta stjórnað ökutæki í umferðinni. Hins vegar er það jafnljóst í mínum huga að við þurfum að gæta okkar á því að setja ekki svo fortakslausar reglur gagnvart eldri borgurum að það sé verulega hamlandi og til mikilla óþæginda, eins og t.d. með endurnýjun ökuskírteina.

Ég endurtek að ég tel að við þurfum að fara yfir málið og skoða að undangenginni rannsókn hvort ekki sé ástæða til að taka þetta upp. Aukið og bætt heilbrigðisástand þjóðarinnar gefur vissulega tilefni til þess sem betur fer og það er af mörgu að taka en jafnframt þarf að líta til umferðaröryggisþáttanna og taka ekki neina áhættu í því samhengi.

Ég endurtek þakkir til hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina og mun láta fara mjög vandlega ofan í þetta í ráðuneytinu, hjá Umferðarstofu og öðrum sem að þessu þurfa að koma.