132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:35]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á að vera svona sein. Það sem mig langar til að vekja athygli á eru fyrirspurnir hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hafa legið inni síðan 15. nóvember. Þingheimur fór ekki í frí fyrr en 9. desember þannig að tímaramminn sprakk áður en hann fór frá.

Háværar deilur hafa verið um fjársvelti Háskólans á Akureyri og leiddi það m.a. til þess að á dögunum var skólanum tryggt fjármagn til að klára þetta skólaár og er það vel. En hvað með framhaldið? Er rekstrargrundvöllurinn tryggður til frambúðar með þessari ákvörðun eða komum við til með að sjá og heyra hávær mótmæli á ári vegna tilmæla um niðurskurð.

Háskólinn á Akureyri er vísinda- og fræðslustofnun þar sem áhersla er lögð á kennslu og rannsóknir á fræðasviðum deilda háskólans. Um er að ræða stærsta háskólann á landsbyggðinni og hefur hann sterk tengsl við atvinnulífið og ýmsar stofnanir í þjóðfélaginu. Skólinn hefur verið mjög leiðandi í fjarkennslu og sinnir nemendum hvarvetna af landinu og langt út fyrir landsteinana. Hann hefur margfaldast að stærð, bæði að húsakosti og nemendafjölda. Umsóknir um skólavist hafa einnig margfaldast á síðustu árum og hefur skólinn þurft að vísa tilvonandi nemendum frá síðustu tvö ár. Rekstur skólans hefur alltaf verið erfiður því að boginn er spenntur hátt og skólinn ávallt stækkaður til hins ýtrasta.

Við Háskólann á Akureyri er boðið upp á margvíslegt nám. Fram hefur komið að gert er ráð fyrir að hefja meistaranám í lögfræði næsta haust. Við skólann er einnig boðið upp á nám sem er kallað samfélags- og hagþróunarfræði og er nýjung hér á landi. Nemendum gefst kostur á að mennta sig í sveitarstjórnar- og byggðaþróunarmálum sem á örugglega eftir að koma hinum dreifðari byggðum landsins til góða því markmiðið er að nemendur sjálfir séu að takast á við þau vandamál sem steðjað hafa að dreifbýlinu.

En mun þessi braut lenda undir niðurskurðarhnífnum? Háskólinn á Akureyri gæti nefnilega stækkað enn frekar og námsframboð ætti að aukast en ekki skerðast. Ég tel að fleiri en við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séu óöruggir um að rekstrargrundvöllur ríkisháskólanna sé tryggður því í fyrradag var haldið málþing um stöðu Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands þar sem skólarnir standa frammi fyrir því að samkeppnisaðstaða þeirra við erlenda og innlenda skóla fer versnandi vegna ónógra fjárframlaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skólarnir þurfa því að verja stöðu sína í stað þess að sækja fram.

Framtíð Háskólans á Akureyri er björt fái hann þann stuðning sem honum ber. Námsframboðið þarf að auka enn frekar og fjölga deildum þannig að skólinn geti þróast eðlilega. Háskólinn á Akureyri er hagkvæmur háskóli fyrir ríkið og þegar litið er á jákvæð áhrif á samfélagið eru kostirnir augljósir. Viljinn er fyrir hendi en það skortir að fjármagn sé tryggt til framtíðar. Ef til vill þarf áræði og kjark til að taka af skarið en málin eru fyrst og fremst í höndum menntamálaráðherra sem þarf að standa sig betur við að útvega það fjármagn sem til þarf svo skólinn verði ekki heftur. Samdráttarkröfur hafa verið á hverju ári. Á að gera ráðherrahagræðingu á næsta skólaári og hver er hún þá?“

Ég get því miður ekki haldið áfram að klára það sem ég er með en ég spyr (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra hver stefna ríkisstjórnarinnar sé varðandi áframhaldandi uppbyggingu og vöxtinn á Akureyri. Og svo hefur hæstv. ráðherra hina síðari spurningu fyrir framan sig.