132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:51]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst að Háskólinn á Akureyri er mjög vaxandi háskólastofnun, skiptir gífurlega miklu máli varðandi byggðamál, en við megum ekki líta eingöngu á það því að þarna er um mjög metnaðarfulla háskólastofnun að ræða sem vex mjög hratt og þar hefur verið mótuð sterk stefna um þróun og vöxt í framtíðinni. Það að nú skuli eiga að ráðast í að framhaldsnám í lögfræði og það verði að veruleika er eitt og sér dæmi um hversu mikill metnaður er þarna til staðar.

Það er alveg fullkominn ásetningur ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að byggja upp Háskólann á Akureyri með bæði (Forseti hringir.) húsnæðiskosti og ekki síður faglegum metnaði.