132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:55]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka áhuga þingmanna á málinu og svör hæstv. ráðherra. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, ég er alveg sammála því sem hún sagði um þessar 60 milljónir sem var verið að úthluta núna, fjárþörfin lá fyrir þegar fyrirspurnin var sett fram í nóvember. Þá var þessi staða ljós en við henni var ekki brugðist þá.

Hins vegar hef ég meiri áhyggjur af framtíðinni, þ.e. að hér kemur fram einhver fagurgali og að fyrir liggi framtíðarsýn varðandi m.a. Háskólann á Akureyri, en er hann til á pappír? Ég spyr. Ég tel að hagræðingarkröfur séu ekki öðruvísi en samdráttarkröfur. Það hefur komið hér fram og líka hjá bæði nemendum og forstöðumönnum á Háskólanum á Akureyri að þeim beri að fyrirskipan stjórnvalda að spara í einu og öðru. Það er eitt að standa undir áætlun og annað að hafa ekki í upphafi peninga til þess að geta rekið skólann.

Það kemur fram hjá þeim að fjárframlögin þurfa að hækka þannig að yfirstjórn skólans þurfi ekki að standa frammi fyrir sambærilegum kringumstæðum aftur. Og eins og kom hér fram áður lofa nú flestir ráðamenn þennan háskóla á góðum degi og það er í sjálfu sér alveg eðlilegt, þetta er mjög góður skóli og hann er ein best heppnaða aðgerð í menntunar- og byggðamálum hérlendis. En orðum þurfa að fylgja athafnir og þær hefur skort á ögurstundu.

Það má alveg velta því upp hér að Akureyrarbær er hluthafi í Þekkingarvörðum, sem er þróunarfélag, og þegar stóð til að byggja vísindagarð eða rannsóknarhús við háskólann bauðst Akureyrarbær til þess að fjármagna byggingu þess með niðurgreiddum lánum en ríkisvaldið sá sér ekki fært að þiggja það tilboð. Þetta kemur fram á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Eins og ég segi, (Forseti hringir.) ég tek bara enn og aftur undir það sem hér hefur verið sagt. Fjárþörfin er ekki leyst til frambúðar.