132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

531. mál
[14:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ástæða er til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um framkvæmd laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum og hvernig til hafi tekist með framkvæmd laga og reglna. Ég hef ástæðu til að ætla að brotalöm sé á framkvæmd laganna og hef af því persónulega reynslu að þurfa að kvarta til aðila sem eiga sæti í nefnd ráðherra um kvikmyndaskoðun þar sem barnamynd, sem augljóslega hafði skaðleg áhrif á börn og var sannarlega ekki við hæfi þeirra, var sýnd í kvikmyndahúsum án þess að vera bönnuð og auglýst sérstaklega sem mynd fyrir alla fjölskylduna. Í þeirri athugun minni kom í ljós að Kvikmyndaskoðun hafði bannað umrædda mynd innan tíu ára aldurs barna en því var ekki framfylgt af kvikmyndahúsunum.

Eftir því sem ég kemst næst er það ekki óalgengt að kvikmyndahúsin framfylgi ekki banni Kvikmyndaskoðunar og allur gangur er á því hvernig kvikmyndahúsin fara að niðurstöðu Kvikmyndaskoðunar eða að þau verði við óskum um að framfylgja banni sem þau hafa ekki sinnt og því má segja að framkvæmd úrskurðar Kvikmyndaskoðunar hafi verið í skötulíki.

Í mínum huga er mikilvægt að taka alla framkvæmd mála og jafnvel lögin í heild sinni til endurskoðunar, ekki síst í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa frá því að lögin um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum var sett árið 1995. Allar tæknilegar forsendur á dreifingu og miðlun myndefnis eru gerbreyttar, tækniframfarir eru orðnar miklar, einkum hvað varðar möguleika í gegnum netið. Þannig verður að þróa nýjar leiðir til eftirlits til þess að fylgja eftir þessum tækniframförum en ljóst er að tæknin gerir alla viðleitni opinberra aðila til eftirlits eða varnaðaraðgerða þunga og erfiða í framkvæmd. En auðvitað er þungamiðjan í þessu að gæta að velferð barna og unglinga og sjá til þess að fyrirmælum Kvikmyndaskoðunar og eftirlitsaðila sé framfylgt, þannig að ekki sé verið að sýna börnum ofbeldiskvikmyndir eða myndir sem skaðleg áhrif geta haft á sálarlíf barna.

Þess vegna er þessi fyrirspurn lögð fram í fimm töluliðum:

1. Hvernig hefur tekist til með framkvæmd laganna um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum?

2. Hvernig hefur Kvikmyndaskoðun gengið að framfylgja úrskurðum sínum um bann við að sýna börnum tilteknar kvikmyndir?

3. Hafa barnaverndarnefndir og löggæslumenn haft reglubundið eftirlit með því að úrskurðum Kvikmyndaskoðunar sé framfylgt og hvaða úrræði eru tiltæk ef þeim er ekki fylgt?

4. Hvaða fjármagni er varið í eftirlit með framkvæmd laganna og er það fullnægjandi að mati þeirra sem eiga að framfylgja þeim?

5. Áformar ráðherra að leggja til breytingar á lögunum til að tryggja skilvirkari framkvæmd þeirra og annarra laga sem kveða á um vernd barna gegn ofbeldisfullu eða skaðlegu efni jafnt í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða á netinu?