132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

531. mál
[14:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég kem nú einfaldlega hingað upp til þess að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og að vekja athygli á því að það þurfi að hreyfa við þessu máli. Það þarf að koma í veg fyrir að brotalamir verði á framkvæmd þess, eins og verið hefur á framkvæmd núgildandi laga og kom fram í máli hv. þingmanns. Ég er sannfærð um að með þessum nýju lögum eða því frumvarpi sem við munum ræða hér verði mun auðveldara að fylgjast með þessum málum og koma í veg fyrir að efni sem talið er vera skaðlegt börnum og unglingum verði á boðstólum. Það er það sem við viljum að sjálfsögðu koma í veg fyrir. Nýbreytni í því frumvarpi er að þetta mun taka til tölvuleikja og mun einnig draga fram ábyrgð þeirra sem standa fyrir sölu á tölvuleikjum sem og kvikmyndum, þar með í verslunum sem hafa slíka vöru á boðstólum.