132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Háskóli Íslands.

578. mál
[14:16]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þegar leitast er við að svara spurningum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um þau áform Háskóla Íslands að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi þykir mér rétt að geta þess hér að Háskóli Íslands hefur sjálfur sett sér það markmið að verða leiðandi afl í uppbyggingu þekkingarsamfélagsins og stefnir í því samhengi að því að skipa sér í röð 100 bestu háskóla í heiminum innan 10 til 12 ára. Með því að setja sér ögrandi og djörf markmið um að komast í hóp 100 bestu háskólanna er skólinn að leggja fram sinn skerf til þekkingarsamfélags okkar sem við stefnum síðan öll að, en íslensk stjórnvöld hafa sett fram þá stefnu Ísland verði meðal fremstu þekkingarsamfélaga árið 2010.

Það hefur verið markmið mitt á undanförnum árum að leyfa háskólasamfélaginu að vaxa og dafna á eigin forsendum og byggja því það umhverfi sem leiðir af sér frumkvæði, kraft og sköpunarmátt. Við höfum náð að fjölga nemendum eins og margoft hefur komið fram og það ætluðum við okkur að gera til að geta tekist á við önnur öflug og mikilvæg verkefni síðar meir.

Hins vegar má benda á að ég hef einnig lagt áherslu á þá þætti sem þykja mikilvægir þegar háskólar eru flokkaðir eftir árangri og gæðum. Staða háskóla á slíkum gæðalistum, sem hv. þingmaður kom m.a. inn á, ákvarðast að stórum hluta af almennum gæðum náms, fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi og umfangi og árangri rannsóknarstarfseminnar í skólanum.

Ég hef einmitt lagt áherslu á þessa þætti í minni tíð sem menntamálaráðherra. Það er ljóst að Háskóli Íslands er elsti og stærsti háskóli landsins og þar er þungamiðja háskólarannsókna hér á landi. Það hefur margoft komið fram að rannsóknarstarf skólans er öflugt og vaxandi að afköstum. Góðar forsendur eru því fyrir eflingu doktorsnáms á mörgum sviðum og nýting fjármuna er góð. Þannig má segja að skólinn hafi ákveðna burði til að stefna að því í áföngum að komast á lista hinna bestu á komandi árum.

Markmið háskólans er því ekki sett fram, eins og margir hafa viljað telja, sem einhver meiningarlaus uppsláttur, heldur að vel ígrunduðu máli og þá sérstaklega af hálfu rektors Háskóla Íslands. Ég tel það skipta miklu máli að það verði skoðað af mikilli alvöru af hálfu stjórnvalda að móta Háskóla Íslands þannig umhverfi að hann hafi faglega sem fjárhagslega burði til að skipa sér í hóp þeirra bestu.

Við höfum sameiginlegt markmið um að koma Íslandi í fremstu röð þekkingarsamfélaga. Aðrar Norðurlandaþjóðir eiga nú þegar háskóla á þessum lista og sumar fleiri en einn. Við vitum að þetta kostar fjármuni. Við höfum verið að fjárfesta þó að sumir vilji ekki koma auga á það að bæði fjölgunin og fjárfesting í menntun á síðustu árum hefur verið gríðarleg. Ég man eftir að einn stjórnmálaflokkur sagði fyrir nokkrum árum rétt fyrir kosningar að hann ætlaði að setja milljarð á ári í háskólann. Við erum löngu byrjuð á því og eiginlega búin að gera það á hverju einasta ári (Gripið fram í.) og munum gera það áfram. Við munum gera það áfram og efla og auka starfsemi háskólanna.

Það er auðvitað mjög auðvelt að koma hér með yfirboð. Ég fagna því þó sérstaklega að það skuli engu að síður vera mikill áhugi og eljusemi af hálfu allra þingmanna sem hér eru til að standa að því markmiði að komast í röð fremstu þekkingarsamfélaga í heimi. Ég vona að þeir geti slegist í lið með háskólanum og okkur sem viljum veg háskólans sem mestan og bestan til þess að hann geti staðið á þeim grundvelli að hann verði í fremstu röð.

Það er rétt að geta þess að í fjárlögunum 2006 hafa grunnframlög til rannsókna við háskóla á verksviði menntamálaráðuneytisins hækkað. Þá er ég að tala um grunnframlögin ein og sér, þau hafa hækkað um 140 milljónir. Jafnframt hafa framlögin til Vísinda- og Tæknisjóðs aukist svo um munar. Ég vil geta þess að áætlun vísinda- og tækniráðs er sú að tvöfalda þetta ráðstöfunarfé samkeppnissjóðanna á kjörtímabilinu. Ráðstöfunarfé sjóðanna hefur aukist úr 792 millj. kr. árið 2003 í 1.750 millj. kr. árið 2006. Það er því verið að bæta í á þeim sviðum þar sem bæta þarf.

Ég mun fara sérstaklega yfir þessi mál með rektor Háskóla Íslands. Við munum að sjálfsögðu taka þetta inn í áætlanir okkar eins og við getum innan þeirra marka sem snerta fjárlög og efnahagsmál. Við munum gera það sem við getum til að stuðla að því að háskólinn nái þessu takmarki á 10–12 árum. En við vitum að fleira þarf að koma til. Það þarf fleira að koma til en eingöngu fjárframlög af hálfu ríkisins. Það er eitt og annað sem gera þarf í innri skipulagsmálum háskólans. Það hefur margoft komið fram í þeim skýrslum sem (Forseti hringir.) hafa verið lagðar fram sem og að auka framlög annars staðar frá til háskólasamfélagsins.