132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Kvennaskólinn á Blönduósi.

605. mál
[14:52]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mun svara báðum hlutum fyrirspurnarinnar í einu þar sem ég tel nokkuð erfitt að svara fyrri hlutanum án þess að koma inn á seinni partinn. Kvennaskólinn er, eins og hv. þingmaður kom inn á, reisulegt hús sem stendur á fallegum stað og með afar merkilega sögu. Ástand hússins, sem er að u.þ.b. 75% hluta í eigu ríkisins, er áhyggjuefni en nýting og ráðstöfun skólabyggingarinnar hefur verið til skoðunar í menntamálaráðuneytinu á undanförnum árum.

Hús Kvennaskólans eru fjögur. Í fyrsta lagi skólahús, u.þ.b. 900 fermetrar, eldri hlutinn er byggður 1911 en viðbyggingin 1934. Í öðru lagi er geymslu- og verkstæðishús upp á 312 fermetra sem byggt var 1968. Í þriðja lagi kennarabústaður, 127 fermetrar, byggður 1965. Og í fjórða lagi kennarabústaður upp á 147 fermetra sem byggður var 1967. Íbúðarhúsin eru bæði í þokkalegu standi þótt vissulega þarfnist þau nokkurs viðhalds og eru að líkindum ágætis markaðsvara, enda standa þau á afar skemmtilegum lóðum á Blöndubökkum. Geymslu- og verkstæðishúsið lætur ekki mikið yfir sér en er þó í sæmilegu standi sem slíkt, en skólahúsið sjálft er að mörgu leyti illa farið hið innra og stenst engan veginn þær kröfur sem gerðar eru í gildandi reglugerðum um brunavarnir o.fl. enda hefur það lítið viðhald fengið síðan skólahald var lagt af árið 1978.

Hugmyndir um hvernig standa á að endurbótum á húsinu eru nátengdar hugmyndum um hvaða hlutverk megi finna húsinu en allar slíkar áætlanir og hugmyndir verða ekki til nema í nánu samráði við heimamenn. Á árinu 1996 gerði ráðuneytið leigusamning við héraðsnefndina og samkvæmt honum tók héraðsnefndin að sér rekstur og umönnun húseigna skólans. Á þessum tíma stóð til að nefndin leysti til sín eignarhluta ríkisins með einhverjum hætti en af því varð aldrei. Þessi samningur var framlengdur tvisvar eða þrisvar og þótt hann sé útrunninn nú er í raun enn eftir honum farið.

Vorið 2002 var héraðsnefndinni og/eða Blönduósbæ boðið að leysa til sín ríkishlutann á málamyndaverði. Því boði var hafnað. Vorið 2003 varð svo að samkomulagi að auglýsa eignirnar til sölu. Nokkur tilboð bárust, öll fremur lág, og var þeim öllum hafnað, einkum vegna þess að héraðsnefndin hafði ekki trú á áformum þáverandi hæstbjóðanda. Síðan hefur það nokkrum sinnum verið ámálgað við héraðsnefndina hvort ekki sé tímabært að auglýsa aftur en því hefur verið tekið fremur dauflega.

Héraðsnefnd Austur-Húnavatnssýslu hefur sett fram hugmynd um að stofna eignarhaldsfélag um skólahúsin sem hafi það hlutverk að gera við þau og leigja þau síðan sjálfseignarstofnun um rekstur Textílseturs Íslands. Þær hugmyndir eru nú til skoðunar í ráðuneytinu og er ekki að efa að Textílsetrið gæti orðið menningar- og þjóðþrifastofnun og nátengd þessu svæði. Það sem helst stendur í mér er að 75% þátttaka ríkisins í eignarhaldsfélagi um rekstur húsa Kvennaskólans á Blönduósi kallar á tugmilljónaútgjöld til viðgerðar strax í byrjun og viðvarandi viðhaldskostnað til fyrirsjáanlegrar framtíðar. Það sem ég hef helst verið að skoða, frú forseti, eru hugmyndir um að bjóða héraðsnefndinni að eignast hlut ríkisins í húsunum á málamyndaverði eða jafnvel án endurgjalds og yrði þá litið til fordæmis frá fyrri árum þegar Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði var afsalað til Ísafjarðarbæjar. Síðan mætti að sjálfsögðu kanna hvort ríkið gæti í framhaldi af því komið að endurbyggingu hússins með styrkveitingum af einhverju tagi.