132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Kvennaskólinn á Blönduósi.

605. mál
[14:58]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að svara hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni þar sem hann talar um að ekki sé vitað hvað varð um muni húsmæðraskólanna. Það er alrangt. Ég átti sæti í nefnd sem Sigurður Helgason var formaður fyrir og Sigrún Magnúsdóttir var í þeirri nefnd líka. Skráðir hafa verið allir munir húsmæðraskólanna í landinu. Það er allt tryggilega frá gengið og til mikils sóma. Það var mikið starf undir forustu Sigurður Helgasonar, þannig að fyrir því er séð. Mér þótti gott það svar sem hæstv. ráðherra gaf hér áðan og ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að heimamenn eignist þetta hús og komi þar upp starfsemi sem hentar samfélaginu þar.