132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Efni frá svæðisdeildum á vef Ríkisútvarpsins.

625. mál
[15:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Það er mikilvægt eins og hjá henni hefur komið fram að almannaþjónustuhlutverki og þjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins verði vel sinnt eins og hér er verið að gera og vonandi verður innan skamms frá öllum svæðisstöðvum og þá verður þetta orðið til mikillar fyrirmyndar hjá Ríkisútvarpinu. Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna þess að það er auðvitað svo að Ríkisútvarpið er að sinna fréttum af landsbyggðinni — ég ætla að vona að ég geti sagt langbest án þess að móðga aðra — með svæðisstöðvum sínum og fréttariturum úti á landi, sem Stöð 2 lagði því miður niður á sínum tíma eftir að hafa verið mikið í gangi með bæði fréttaritara og myndatökumenn á landsbyggðinni. Að vísu er Stöð 2 að sjálfsögðu með verktaka sem geta myndað og tekið fréttir en fréttir svæðisútvarps og þjónusta svæðisútvarpanna er mjög góð og til fyrirmyndar. Það er auðvitað líka vegna þess að þeir fréttaritarar og starfsmenn sem þar vinna, fréttamenn, sinna sjónvarpi líka með myndatökum og öðru slíku.

Þetta er ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að jafnt jákvæðar fréttir, og helst sem oftast jákvæðar fréttir, en því miður oft líka neikvæðar fréttir, séu fluttar af landsbyggðinni og það sé hægt að geta um allt það góða sem þar er sannarlega verið að gera, sama hvort það eru íþróttakappleikir eða menningarviðburðir eða annað slíkt. Íbúar landsbyggðarinnar eiga auðvitað að sitja við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins, að sagðar séu fréttir af því sem er að gerast.

Ég vil þakka fyrir það sem gert hefur verið og hvet hæstv. menntamálaráðherra til að ýta vel á eftir ef þess þarf til þess að allar svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins muni bjóða upp á þessa góðu (Forseti hringir.) þjónustu sem farið er að veita frá Akureyri.