132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

632. mál
[15:12]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og skemmtilegan inngang, það er ágætt að finna hve miklar tilfinningar og mikill hlýhugur eru í garð þessa húss en sama kom reyndar fram áðan í annarri fyrirspurn gagnvart öðru gömlu og góðu húsi, Kvennaskólahúsinu á Blönduósi. Hér erum við að ræða gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

Fyrsta fyrirspurnin hljóðar þannig:

„1. Hvernig er gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni nýtt og hvaða hugmyndir eru uppi um notkun þess í framtíðinni?“

Notkun hússins hefur farið minnkandi á undanförnum árum eins og við þekkjum, einkum vegna þess að lengi hefur verið ljóst að rýma þyrfti húsið að verulegu leyti vegna viðgerða. Bókasafn menntaskólans er þar enn til húsa en fyrirhugað er að flytja það í aðalbyggingu menntaskólans á næstunni. Þá fer einnig fram talsverð kennsla í valgreinum menntaskólans og síðast en ekki síst eru í húsinu þrjár íbúðir sem nær stöðugt hafa verið í fullri notkun. Ýmsar hugmyndir um framtíðarnýtingu hússins hafa verið ræddar á undanförnum árum en engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um það.

Með tilkomu nýs vegar milli Þingvalla og Laugarvatns má ætla að umferð um Laugarvatn aukist og jafnframt má ætla að með vaxandi byggð á staðnum breytist áherslur og auðveldara verði að fá húsinu nýtt hlutverk við hæfi og í samráði og samvinnu við sveitarstjórn eða aðra aðila sem láta sig framtíð hússins varða.

Síðan er spurt:

„Er fyrirhugað að leggja fé í endurnýjun og viðhald hússins? Ef svo er, hve mikið?“

Til þessa hefur fé til viðhalds héraðsskólahússins verið tekið af takmörkuðu viðhaldsfé menntaskólans og hefur viðleitnin því eingöngu beinst að því að forða húsinu frá skemmdum. Á þessu ári verður þar breyting á því að við gerð fjárlaga 2006 fékkst 40 millj. kr. fjárveiting til endurbóta á húsinu. Gerð hefur verið áætlun um framkvæmdir og er talið að í sumar verði að mestu hægt að ljúka viðgerðum utan húss fyrir það fé. Um er að ræða verulegar múrviðgerðir og málningu og einnig verða allir gluggar endurnýjaðir. Í áætlunum til fjárlaga 2007 er gert ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingu til hússins og verður þá unnt að taka til við framkvæmdir innan húss sem eru mjög miklar.

Þess ber að geta að umrætt hús er friðað hvað varðar ytra útlit og einnig útlit inngangs og anddyris. Vegna þess má ætla að viðgerðir verði nokkuð flóknari, frú forseti, en ella mundi, bæði hvað varðar hönnun, verklag og efnisval en það dylst engum mikilvægi þess að viðhalda gömlum húsum. Nú loksins sjáum við fram á að geta hafið myndarlega endurreisn þessa gamla og góða húss.