132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

632. mál
[15:16]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Héraðsskólahúsið á Laugarvatni er í rauninni táknmynd staðarins, þessa skólastaðar. Það er í burstabæjarstíl og teiknað af Guðjóni Samúelssyni, eins og kom fram hér, og er ein af gersemum í hópi gamalla húsa á Íslandi. Eins og kom fram hjá hæstv. menntamálaráðherra var afgreidd á fjárlögum í desember 40 millj. kr. fjárveiting til endurbóta á húsinu. Það er mjög mikilvægt að varðveita þetta hús og finna því ákveðið hlutverk. Ég hef heyrt að mjög margir hafi jafnvel áhuga á að kaupa húsið en ef það verður selt yrði náttúrlega alltaf að passa upp á að þær kröfur sem gerðar eru til friðunar húsa séu uppfylltar.