132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

632. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir greinargóð svör. Ég vil einnig þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Loksins dönsuðum við í takt í þessum sal því að við vorum mjög samstiga, meira að segja vorum við, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, samstiga. Það hefur nú komið fyrir að við stígum á tærnar hvor á öðrum en í þessu máli vorum við alveg samstiga og það finnst mér skipta miklu máli.

Eins og ég sagði í inngangi mínum eru uppi ýmsar mjög spennandi hugmyndir um notkun þessa húss og þær hugmyndir hefur skólameistarinn, Halldór Páll Halldórsson, og skólanefndin sett fram. Þeim hafði dottið í hug að þarna gæti t.d. orðið mennta- og menningarsafn Íslands þar sem sýnt væri allt frá farkennslu og fram til þess hvernig kennsla fer fram í nútímanum. Menn hafa velt fyrir sér hvort þarna gæti verið ráðhús fyrir uppsveitir Árnessýslu en til þess þarf auðvitað að sameina sveitarfélögin í uppsveitunum. Menn hafa líka velt fyrir sér hvort þarna ættu að vera fræðimannaíbúðir, listamannaíbúðir og þess háttar. Þarna hafa konur verið með svokallaða Gullkistu, konur hafa verið með mjög spennandi hugmyndir um að þarna gæti verið alþjóðlegt listasetur. Menn hafa líka velt fyrir sér hvort þarna gæti verið lúxushótel. Ekki hefði ég á móti því að þarna yrði reistur einhver minnisvarði um Jónas Jónsson frá Hriflu, en eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson kom inn á átti hann sinn stóra þátt í því að þetta hús var byggt á sínum tíma, og reyndar er minnisvarði á Laugarvatni um þann góða mann.

Ég fagna þessari umræðu og ég vonast til að það verði veitt árvisst framlag til þessa húss þannig að varðveita megi það til framtíðar því að það er eins og ég sagði í ræðu minni áðan tákn um alþýðumenntun á Íslandi.