132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:29]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Erlu Pálmadóttur fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Þetta skiptir afskaplega miklu máli og það er rétt sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði áðan að þetta eru oftast stærstu vinnustaðirnir á landsbyggðinni, þ.e. öldrunarþjónustan, hjúkrunarheimilin og sjúkrahúsin á landsbyggðinni. Ég vil nefna eitt enn og það er Náttúrulækningastofnunin í Hveragerði sem er með miklu ódýrari vistunarpláss en stóru sjúkrahúsin sem skiptir miklu máli í endurhæfingunni. Það á að nýta þetta meira. Það á líka að nýta meira sjúkrahúsin í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem hægt er veita ódýrari þjónustu. Það þurfa ekki allir að fara inn á hátæknisjúkrahús og það eru mikil sóknarfæri fyrir staði eins og Akranes, Selfoss og Keflavík að nýta sér slíkt.