132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Jóhönnu Erlu Pálmadóttur fyrir að vekja rækilega athygli á þessu máli hér og mikilvægi heilbrigðisstofnana úti um land. Við heyrum allt of mikið talað eins og að það séu bara tvær heilbrigðisstofnanir í landinu, Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri. Gott og vel er að efla það. En ég hef á tilfinningunni að sjúkrahúsin önnur séu eins og að detta niður á milli.

Við heyrðum hjá hæstv. ráðherra að sameiningarviðræður eru í gangi til hagræðingar. Ég er ekki sammála því að það sé hentugt fyrir sjúkrahúsið eða heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga, Blönduósi eða Sauðárkróki að vera lagða undir yfirstjórn Sjúkrahússins á Akureyri. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvaða áætlanir eru í gangi varðandi þessi minni sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir? Þau standa flest frammi fyrir niðurskurði á fjárlögum eða verða að berjast fyrir að halda óbreyttu fjármagni. Tökum dæmi af Hvammstanga. Hvaða svar hefur t.d. hæstv. ráðherra gefið sjúkrahúsinu á Hvammstanga gagnvart þeim niðurskurði sem þar er verið að beita?