132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Erla Pálmadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svör hennar. Einnig þakka ég þá umræðu sem hér hefur orðið. Unnið hefur verið að því undanfarið að sameina sjúkrahús á landsbyggðinni eins og hefur komið fram, t.d. á Austurlandi og Vestfjörðum og víðar. Allt gott er um það að segja, en það á ekki alls staðar við. Þetta á t.d. ekki við á Norðurlandi, að okkur finnst. Vil ég fá að lesa upp ályktun sem samþykkt var á fundi Húnavatnshrepps 3. mars síðastliðinn þar sem tekið var fyrir erindi frá nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu. Ég les hana upp máli mínu til staðfestingar, með leyfi forseta:

„Hugmyndir um stofnun að heilbrigðisumdæmum sem ná yfir heila landshluta, sem sagt allt Norðurland, mun minnka áhrif heimamanna á hverjum stað og er hætt við að þau góðu tengsl sem verið hafa á milli heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi og íbúanna á svæðinu muni rofna. Mjög óljóst er hvort nokkur fjárhagslegur ávinningur er af stækkun heilbrigðisumdæma. Ekki er sýnilegt að gæði þjónustunnar muni aukast við stækkun heilbrigðisumdæma.“

Áhyggjur eru miklar vegna þessarar endurskoðunar á lögum um heilbrigðisþjónustu og langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hvaða möguleika hún sjái felast í þessum nýju lögum. Hvaða möguleika sér hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að efla heilbrigðisstofnunina á Blönduósi? Er ef til vill möguleiki að auka hvíldarinnlögn og endurhæfingu þar sem fjármagn fylgir?