132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að mikilvægt að sameina heilbrigðisstofnanir eins og við erum byrjuð að gera. Ég heyri þau rök sem eru tínd til gegn slíkri sameiningu og þau minna að mörgu leyti á rökin gegn sameiningu sveitarfélaga þó að sú sameining sé allt annars eðlis. En samt eru svipuð rök tínd til.

Ég tel að tækifæri felist í því að efla og stækka þessi heilbrigðisumdæmi og þar með fækka þeim eins og hér kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller. Það eru tækifæri í því. Í heilbrigðisþjónustunni er sífellt gerð meiri krafa um bætta þjónustu og sérhæfðari. Heilbrigðisþjónustan er þess eðlis að menn vilja meiri sérhæfingu. Ég trúi ekki öðru en að þegar þingmenn hafa velt fyrir sér hagsmunum landsbyggðarinnar hljóti þeir að komast að þeirri niðurstöðu að með því að sameina stofnanir í stærri og sterkari einingar, þó að þær séu dreifðar, skapist tækifæri til sérhæfingar í slíku kerfi, í stað þess að hafa geysilega margar litlar heilbrigðisstofnanir sem mun erfiðara er að vinna með í samstarfi en ef þær væru undir einum hatti.

Við munum fá mjög gott tækifæri til að ræða þessi mál þegar frumvarp til heilbrigðislaga kemur fram. Ég vonast til að geta lagt það fram í vor. Það er verið að vinna í því núna, ekki til þess að láta samþykkja það heldur til að sýna frumvarpið og fá umræðu um það, senda það til umsagnar til að það fái að þroskast hérna. Það er alla vega mín trú að sóknarfæri felist í því að stækka heilbrigðisumdæmin þannig að ein heilbrigðisstofnun verði þungamiðjan í hverju umdæmi. Tafir á því munu einungis verða til skaða, ef eitthvað er, vegna þess að með stærri einingum er hægt að sérhæfa sig meira.