132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[15:39]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Umræða um þjónustu við börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða er víðfeðm og forræði málaflokksins er á margra höndum. Því verða málinu ekki gerð viðunandi skil í stuttri utandagskrárumræðu enda er tilgangur minn með þessari umræðu í dag að beina athyglinni að vanda fjölskyldna barna og unglinga með geðræna sjúkdóma vegna viðvarandi úrræðaleysis innan velferðarþjónustunnar. Hæstv. heilbrigðisráðherra ber þyngstu ábyrgðina og því skiptir höfuðmáli hvernig þjónustunni er háttað, þ.e. hvernig heilbrigðisþjónustan er byggð upp með tilliti til forvarna, nærþjónustu, sérfræði- og sjúkrahúsþjónustu og síðast en ekki síst þverfaglegrar vinnu og samstarfs stofnana innan og utan heilbrigðiskerfisins.

Hæstv. forseti. Nú eru liðin tíu ár frá því að sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna. Við þá breytingu virðast hafa orðið nokkur vatnaskil við greiningu og meðferð barna með geðræna sjúkdóma, sérstaklega meðferð vægari sjúkdóma. Við breytinguna var gengið út frá því að sérfræðiþjónusta skóla sæi um ráðgjöf, forvarnir og greiningu á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum hafi þessir erfiðleikar áhrif á nám nemenda, en ríkið sæi um meðferð barna og unglinga með geðræn vandamál.

Sérfræðiþjónusta, þ.e. greining og meðferð vægari einkenna, stuðningur við foreldra og veikari börn, fór út úr skólunum án þess að vísað væri á viðeigandi heilbrigðisþjónustu eða úrræði. Það var enginn til að taka við boltanum og er það ekki enn tíu árum síðar. Afleiðingin hefur m.a. komið í ljós með mikilli aukningu umsókna á barna- og unglingageðdeildir Landspítala – háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Sum sveitarfélög hafa nú ákveðið að bjóða upp á þjónustu á þessu sviði þótt samkvæmt reglugerð sé óljóst hvort það sé í þeirra verkahring. Það eru eingöngu hin stærri og fjársterkari sveitarfélög sem geta tekið að sér aukna þjónustu við börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða og eykur það enn frekar á ójöfnuð fjölskyldna eftir búsetu. Þjónusta á þessu sviði er því ófullnægjandi vegna skorts á meðferðarúrræðum. Eins er mikil óreiða í skipulagi þessara mála.

Hæstv. forseti. Á Íslandi eru sjötíu þúsund börn og talið er að um 3–5% þeirra eða um fjögur þúsund börn séu með verulegar geðraskanir en meira en helmingi fleiri þurfa á tímabundinni aðstoð að halda. Hér á landi eru úrræði fyrir 0,6% barna á aldrinum 0–18 ára á öllu landinu. Til samanburðar má nefna að í Noregi og Danmörku eru úrræði fyrir um 2% barna á þessum aldrei. Hafa Danir frekar fjölgað meðferðarúrræðum en hitt. Því eru hér miklu færri pláss eða úrræði til að sinna þessum börnum.

Aukin lyfjanotkun barna og unglinga með geðraskanir veldur mörgum áhyggjum. Margar skýringar liggja að baki þessari þróun, m.a. hafa geðrænir sjúkdómar verið vangreindir allt fram á síðustu ár, en börn geta í dag fengið faglegri greiningu og meðferð með tilkomu fleiri sérfræðinga á þessu sviði. Önnur skýring er sú að heimilislæknar ávísi um of lyfjum þegar önnur úrræði eru ekki fyrir hendi. Hugsanlega væri hægt að draga úr ávísunum lyfja ef nægur stuðningur innan og utan skólakerfisins væri fyrir hendi fyrir þessar fjölskyldur. Geðheilbrigðisþjónustu barna hefur lítið verið sinnt á heilsugæslustöðvum hingað til þótt slíkt falli vel að hlutverki þeirra samkvæmt lögum. Ítrekað hefur verið bent á nauðsynlegar úrbætur og í því skyni voru gerðar lagabreytingar svo að hægt væri að ráða fleiri starfsgreinar inn á stöðvarnar og voru sálfræðingar nefndir sérstaklega í þessu sambandi.

Hæstv. forseti. En ekkert hefur gerst, hvorki fastráðningar né að gengið sé til samninga við sálfræðinga um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins. Mikið skortir á stuðning við foreldra barna með geðraskanir og telja þeir að allt of löng bið sé eftir þjónustu þegar börn hafa fengið viðeigandi greiningu eða hún fáist alls ekki. Starfsfólk á barna- og unglingageðdeildum er undir miklu álagi og ætti nýliðun lækna á þessu sviði að vera hæstv. heilbrigðisráðherra áhyggjuefni. Álag á sjálfstætt starfandi sérgreinalækna hefur aukist ár frá ári og hafa skapast erfiðleikar í þjónustunni þar sem einingafjöldi Tryggingastofnunar ríkisins hefur ekki fylgt þróuninni. Þessi staða hefur enn aukið erfiðleika fjölskyldna í brýnum vanda. Það er ekki ásættanlegt að þurfa að bíða í marga mánuði eftir tíma hjá barna- og unglingageðlækni.

Hæstv. forseti. Ég hef lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra:

Telur ráðherra að geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga sé ásættanleg í dag? Ef ekki, hvaða þjónustu þarf að bæta? Hver er forgangsröðun innan ráðuneytisins í þessum málaflokki í dag? Er unnið að stefnumörkun á þessu sviði og ef svo er, hverjar eru helstu áherslur heilbrigðisráðherra í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga? Að lokum: Hvað tefur viðbyggingu og endurbætur á húsakynnum BUGL við Dalbraut?