132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[15:44]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Spurt er: Telur ráðherra að geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga sé fullnægjandi? Því er til að svara að eðli heilbrigðisþjónustunnar er almennt þannig að það er ávallt erfitt að halda því fram að tilteknir þættir þjónustunnar séu fullnægjandi. Í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna hefur hins vegar mikið verið gert á undanförnum árum og margt mjög vel gert. En við þurfum hins vegar að halda áfram að byggja upp þjónustuna. Vísbendingar eru um að vandi hafi aukist meðal tiltekinna hópa og þar þurfum við að beita okkur sérstaklega. Ég mun leggja áherslu á það í ráðuneytinu.

Í öðru lagi spyr hv. 10. þm. Norðaust. hvað það sé sem betur mætti fara. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð og flytja þjónustuna við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra nær þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Ég heyri að við hv. þm. Þuríður Backman erum sammála um það.

Við þurfum á þeim vettvangi að grípa fyrr inn gagnvart þeim sem eiga við vandamál að stríða og það er einmitt þetta sem verið er að gera, t.d. á heilsugæslunni í Grafarvogi sem gæti orðið öðrum gott fordæmi, enda árangurinn af því starfi góður. Það er því ekki rétt að ekkert hafi verið gert. Þar er einmitt tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar í gangi við að efla greiningarþjónustu og fyrstu meðferð og það verkefni lofar mjög góðu.

Einnig er verið að vinna á svipuðum nótum á Akranesi og Suðurlandi, þann þátt erum við að efla. Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss er í ákveðnu lykilhlutverki á þessu sviði og þar þarf að efla þjónustuna t.d. með öflugri göngudeildarþjónustu og styrkja möguleika starfsmanna BUGL til að veita tiltekna þjónustu á landsvísu og styðja við bakið á þeim öðrum stofnunum sem sinna börnum. Síðan þarf að tryggja að legudeildirnar, barna- og unglingadeild, eflist og dafni.

Virðulegi forseti. Í þriðja lagi spyr þingmaðurinn hvaða vinna sé í gangi á þessu sviði. Undanfarin missiri hefur verið lögð mikil vinna í að bæta stöðu barna og unglinga með geðraskanir. Fyrir utan bein fjárframlög hefur verið lögð áhersla á bæði úttektir og stefnumótun. Tvennt vil ég nefna sérstaklega sem ég bind miklar vonir við, fyrir utan það sem ég nefndi hér að framan, og snýr það að aukinni þjónustu markvisst í heilsugæslunni. Sérstakur verkefnisstjóri var fenginn til að gera tillögur um hvernig samþætta megi þjónustu hinna ýmsu kerfa við börn og unglinga með geðraskanir á grundvelli úttektar sem hann gerði.

Nefnd um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni skilaði fyrir stuttu tillögum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Tillögurnar og nefndarálitið má finna á heimasíðu ráðuneytisins en þar er gerð grein fyrir aðstæðum og helstu úrræðum á þessu sviði og bent á að forræði á geðheilbrigðismálum barna er margskipt. Tillögurnar eru raunhæfar og þeim má hrinda frekar hratt í framkvæmd og að því er stefnt. En þær eru þessar helstar:

Í fyrsta lagi eru tillögur sem lúta að því að tryggja börnum og forráðamönnum þeirra greiða leið að þjónustu og bæta samfellu þjónustunnar. Þar er gert ráð fyrir að stjórnendur stofnana skýri starfssvið stofnananna.

Í öðru lagi eru markmið sem lúta að því að tryggja börnum nauðsynlega þjónustu og koma í veg fyrir tafir í því sambandi. Tillögur undir því markmiði falla að því að efla heilsugæsluna með þverfaglegri nálgun nokkurra fagstétta og að sálfræðiþjónusta í skólum verði efld. Gert er ráð fyrir tenglakerfi innan heilsugæslunnar, svokallaðs „case manager“ sem beri ábyrgð á hverju barni og fjölskyldunni.

Í þriðja lagi eru markmið sem lúta að bættu aðgengi barna og unglingageðdeildar á BUGL og styttingu biðlista þar. Tillaga þar lýtur að því að hraða framkvæmdum við nýbyggingu barna- og unglingageðdeildar.

Virðulegur forseti. Einnig er spurt hvaða vinna sé nú í gangi í heilbrigðisráðuneytinu á þessu sviði. Því er til að svara að það stendur yfir vinna við að hrinda framangreindum tillögum í framkvæmd. Þess utan vil ég nefna að sænskur sérfræðingur hefur verið fenginn að fara yfir málin í geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Sérfræðingurinn heitir Anders Milton og er þekktur í Svíþjóð fyrir störf sín á þessu sviði en hann var af hálfu sænsku ríkisstjórnarinnar fenginn til að gera úttekt á geðheilbrigðisþjónustu Svía. Hann mun fá nokkur vandamál til skoðunar sem hafa blasað hér við um nokkurt skeið og gera grein fyrir viðhorfum sínum og leggja fram hugmyndir sínar um hvernig megi bæta úr strax í sumar. Ég bind því talsverðar vonir við starf hans.

Þá tel ég einnig rétt að geta þess að áform um uppbyggingu á barna- og unglingageðdeild við Dalbraut hafi verið til skoðunar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Áformin gera ráð fyrir kostnaði við framkvæmd sem nemur um 680 millj. kr. en fyrsti áfanginn er nú sérstaklega til skoðunar. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum tekið saman er búið að safna rúmum160 milljónum í þá framkvæmd.

Í fjórða lagi er spurt, hæstv. forseti: Er verið að vinna að stefnumörkun á þessu sviði? Og ef svo er, hverjar verða helstu áherslur í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga? Ég vil nefna hérna sérstaklega að færa þjónustuna nær börnunum, þ.e. að efla hana á heilsugæslusviðinu.