132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[15:49]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Það eru nákvæmlega þrjú ár í þessum mánuði frá því að tillögur frá fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni, voru samþykktar og sendar voru út fréttatilkynningar um að geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni skyldi hafa algjöran forgang. Tvennt átti að gera. Stækka og byggja við barna- og unglingageðdeildina og auka göngudeildarþjónustu. Þetta var rétt fyrir síðustu kosningar. Ekkert hefur verið gert enn þá. Ég spyr: Voru þetta innantóm kosningaloforð? Þrjú ár eru liðin.

Aldrei í 35 ára sögu barna- og unglingageðdeildarinnar hefur verið annað eins álag á deildinni, segir yfirlæknirinn. Biðlistar hafa aldrei verið lengri en nú. Yfir 100 börn bíða eftir fyrstu komu á deildina en þar að auki eru langir biðlistar eftir innlögn.

Milli 70 og 80 börn bíða eftir iðjuþjálfun. Svona má halda áfram. Eftirspurnin eykst jafnt og þétt og deildin hefur ekki haft undan lengi vegna ónógra úrræða. Ekki er síður skortur á stuðningi og sérúrræðum utan deildarinnar. Læknar deildarinnar hafa nú séð sig knúna til að skrifa ráðherra bréf og krefjast þess að gripið verði til ráðstafana án tafar.

Mikið álag er á starfsfólki deildarinnar sem er orðið langþreytt á að framkvæmdir við stækkun BUGL dragist á langinn. Við getum ímyndað okkur álagið á aðstandendur barnanna sem bíða eftir þjónustunni. Áætlað er að framkvæmdir við stækkun BUGL taki þrjú ár frá því að framkvæmdir hefjast og um 100 milljónir vantar þrátt fyrir að fyrirtæki, samtök og einstaklingar hafi komið með fjárframlög að undanförnu. Það þarf að spýta í lófana. Við getum ekki látið börn og unglinga með geðræna sjúkdóma líða fyrir (Forseti hringir.) aðgerðaleysi stjórnvalda.