132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[15:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda hv. þm. Þuríði Backman fyrir að færa þetta mál hér til umræðu í Alþingi. Málið varðar geðheilbrigði barna og unglinga. Geðsjúkdómar snerta fjölmarga í samfélaginu og ekki einungis þá sem veikjast heldur einnig og oft ekki síður aðstandendur þeirra.

Fullyrða má að viðhorf til geðsjúkdóma hafi breyst til batnaðar á síðustu áratugum. Þó er staðan erfið og verður sífellt brýnna að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á öllum þjónustustigum, bæði hjá sveitarfélögum og ríki.

Þann 1. þessa mánaðar lýstu fjórir sérfræðilæknar á barna- og unglingadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, BUGL, yfir miklum áhyggjum af þróun þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Vildu sérfræðingarnir að gripið yrði til róttækra ráðstafana án tafar. Þeir bentu m.a. á að auka þyrfti úrræði í nærumhverfi barna og unglinga sem glíma við geðraskanir af einhverju tagi.

Gríðarlegt álag hefur verið á barna- og unglingadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss um langa hríð. Biðlistar langir og mikið álag á starfsfólki deildarinnar. Framkvæmdir við stækkun deildarinnar hafa tafist verulega og þegar framkvæmdir við viðbygginguna hefjast loksins líður að minnsta kosti eitt ár þar til unnt verður að taka bygginguna í notkun. Þeim sem koma á göngudeild BUGL hefur fjölgað um 30% á milli ára og meira en 100 börn bíða eftir fyrstu komu á göngudeild, auk þess sem tugir barna bíða eftir innlögn.

Af þessu má sjá að bæta þarf grunn- og geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga almennt og einnig þarf að bæta aðstöðu barna- og unglingageðdeildar svo fljótt sem unnt er.

Öllum er ljóst að stjórnvöld verða að sinna þessum málaflokki mun betur og ég vona að þessi umræða á hinu háa Alþingi skili börnum og unglingum ávinningi og verði til þess að þeim málaflokki verði betur sinnt af stjórnvöldum í framtíðinni.