132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[15:56]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að vekja máls á þessu mjög svo brýna máli. Það má velta því fyrir sér hvað veldur að ár eftir ár gjósa upp umræður um geðheilbrigðismál barna og unglinga. Í grein í Morgunblaðinu 15. nóvember er haft eftir Ólafi Ó. Guðmundssyni, yfirlækni BUGL, með leyfi forseta:

„Hvert geta foreldrar eða kennarar leitað, þegar barn hegðar sér eða líður illa? Svarið er … að markviss verkaskipting … er ekki til.“ — Og því tilviljunum háð hvernig leitað er til þeirra aðila sem eiga að sinna þessum málum. — „Hver ber ábyrgð á óreiðunni, sem hefur þróast ómarkvisst í áranna rás? … Lýst er eftir leiðakorti um óreiðustíga þess kerfis, sem mæta á vanda hins stóra hóps barna og unglinga, sem búa við skert aðgengi að nauðsynlegri þjónustu …“

Grunnskólar landsins þurfa að reiða sig á að fyrir liggi greining frá barna- og unglingageðlækni ef nemandi á í vandkvæðum og þarf stuðning við kennslu. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga tekur ekki þátt í kostnaðinum nema að slíkar greiningar liggi fyrir. Þegar biðin er svona löng og málin í slíkum ólestri eru það börnin sem líða fyrir. Á meðan reyna skólayfirvöld að leysa málin og kennarar allt of oft með mál sem ættu að vera í höndum barna- og unglingageðlækna.

Í lok síðasta árs skrifuðust á þáverandi hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jón Kristjánsson, og nokkrir sjálfstætt starfandi barna- og unglingageðlæknar í Morgunblaðinu. Þar var m.a. tekist á um einingafjölda sem ætlaður var í málaflokkinn. Að mati læknanna var ekki tekið tillit til aðstæðna ársins á undan sem var um margt ólíkt því sem venjulegt er, og er þar átt við verkfall kennara og samningsleysi milli sérfræðilækna og Tryggingastofnunar.

Það sem við þurfum að einblína á er að í lok ársins í fyrra voru allt að sjö vikur sem barna- og unglingageðlæknar gátu ekki sinnt sínu starfi, eins og Páll Tryggvason hefur sagt frá opinberlega. Það kemur líka fram að enginn er að nema þessi fræði við Háskóla Íslands og við þurfum að sjá til þess að prófessorsstaða verði til við háskólann svo einhver vilji læra fagið. Auk þess verðum við að búa til heildstætt teymi, líta á heildarmyndina, klára málin á landsvísu, samhæfa vinnu ráðuneyta og sveitarfélaganna (Forseti hringir.) þannig að nærþjónustan verði efld.