132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[16:03]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Frú forseti. Þann 11. mars sl. birtist ítarlegt viðtal við Sigrúnu Ólafsdóttur í Blaðinu. Sigrún vinnur að doktorsverkefni í félagsfræði við Indiana-háskólann í Bandaríkjunum. Doktorsverkefni Sigrúnar fjallar um heilbrigðismál og sérstaklega stöðu geðrænna vandamála í heilbrigðiskerfinu. Í störfum hennar hefur komið fram að einkum tveir þættir skipti afar miklu máli varðandi hvernig tekið er á geðrænum vandamálum barna og unglinga, annars vegar að hugað verði að fordómum í samfélaginu, hvernig þeir birtast og hvaða áhrif þeir hafa á líðan og upplifun barna sem eiga í erfiðleikum, og hins vegar verður að huga að aðstæðum og úrræðum sem eru í boði fyrir börn sem eiga við andlega vanlíðan að stríða.

Varðandi aðstæður og úrræði má segja að of mikil áhersla hafi verið lögð á hið læknisfræðilega sjónarhorn þar sem lyfjagjöf á að vera hin endanlega lausn á geðheilbrigðisvanda barna og unglinga. Þetta þýðir ekki að læknisfræðilega sjónarhornið sé ekki mikilvægt eða að lyf hjálpi ekki börnum í einhverjum tilfellum. Hér er hins vegar átt við að hvorki sé nægjanlegt tillit tekið til þess sem aðrar stéttir hafa fram að færa né að tekið sé á þeim félagslegu aðstæðum sem börn búa við. Það er t.d. mikilvægt að velta fyrir sér langtímaafleiðingum þess að hafa börn á geðlyfjum og/eða að hafa þau inni á stofnunum frekar en að fyrsta skrefið sé á þann veg að þeim sé hjálpað í skólakerfinu eða reynt sé að bæta úr félagslegum aðstæðum þeirra. Til dæmis fara öll börn á grunnskólaaldri í læknisskoðun á hverju ári. Það mætti spyrja hvort við þyrftum ekki einnig að huga að andlegri heilsu þeirra. Þetta þýðir ekki að við séum að sjúkdómsvæða geðheilsu þeirra heldur undirstrika mikilvægi þess að athuga hvernig börnum almennt líður. Því er grundvallaratriði að önnur meðferðarúrræði sem boðið er upp á, t.d. af sálfræðingum og iðjuþjálfum, fái notið sín að fullu í kerfinu.

Frú forseti. Hluti af vandanum liggur í heilbrigðiskerfinu, t.d. er þjónusta geðlækna niðurgreidd á meðan sálfræðiþjónusta er það ekki. Þannig verður beinni leið á milli þess að fara til heimilislæknis og síðan til geðlæknis frekar en að vísað sé á aðrar úrlausnir.