132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[16:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um málefni þeirra sem eiga við geðheilbrigðisvandamál að stríða, og sérstaklega barna. Mér heyrist vera nokkur samhljómur í því að þingmenn telja að efla eigi sem mest nærþjónustuna og það er að sjálfsögðu til þess að koma í veg fyrir að vandamálið þróist, og leita leiða til að koma til móts við stærsta hópinn sem er minna veikur en sá hópur sem er langt genginn með sinn sjúkdóm.

Það er einmitt það sem ég tel mjög mikilvægt, þ.e. að efla úrræðin í nærþjónustunni, í heilsugæslunni. Þess vegna eru þau verkefni sem eru núna í gangi mjög spennandi. Þar er einmitt verið að efla heilsugæsluna til að takast á við vandann til að greina hann mjög snemma í ferlinu og hefja fyrstu meðferð.

Að sjálfsögðu er það ekki nóg. Það er hópur sem þarf á mun meiri þjónustu að halda, sérhæfðari þjónustu eða 3. stigs þjónustu, og þá kemur til kasta BUGL á Landspítalanum. Það þarf líka að efla þá starfsemi sem þar er. Hér er kallað eftir viðbyggingu sem verið hefur í umræðunni og það er mjög eðlilegt. Það er talið að framkvæmdin kosti um 680 millj. kr. og fyrsti áfangi er til skoðunar. Búið er að gera frumathugun fyrir þann áfanga og lýsa áformum um bygginguna. Það hefur nú verið sent til fjármálaráðuneytisins til skoðunar (Gripið fram í: … gera fyrir þremur árum?) og safnast hefur nokkurt fjármagn til að hefja þær framkvæmdir.

Virðulegur forseti. Ég vil einnig draga fram að ég bind nokkrar vonir við starf þessa Svía, sem er sérfræðingur á þessu sviði og hefur skoðað þetta fyrir Svíana, og að hann komi með hugmyndir, af því að þetta er þverfaglegt og það er skipt forræði yfir málaflokknum en það gerir þetta svo flókið (Forseti hringir.) og erfitt.