132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess hér, þar sem ég er einungis áheyrnarfulltrúi fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd, að ég hef haft mjög miklar efasemdir um þetta mál og ég gerði grein fyrir þeim í nefndinni en stöðu minnar vegna í henni hafði ég ekki tök á að gefa hér minnihlutanefndarálit.

Efasemdir mínar byggjast að hluta til á þeirri stefnu þessarar ríkisstjórnar að skilgreina vatn undir einkaeignarrétt. Ég tel að hér sé á ferðinni angi af því máli sem mótast í sjálfu sér af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur í þessum málum sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa mótmælt hér harðlega.

Í umræðunni í gær sem ég átti því miður ekki kost á að vera viðstödd velti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson upp ákveðnum atriðum sem ég tel fullt tilefni til að skoða nánar í nefndinni og ég fagna því að hv. þm. Birgir Ármannsson, sem hefur verið talsmaður nefndarinnar í þessu máli, skuli hafa gefið yfirlýsingu um að málið verði, vegna þessara nýju upplýsinga, kallað inn í nefndina aftur.

Það er nefnilega þannig að þjóðlenduúrskurðurinn frá 2002 leiðir það í ljós, sem jafnvel eru áhöld um, að ríkið hafi ekki haft yfirráð yfir þeim réttindum sem það lagði inn í Landsvirkjun 1965, og með þeim gerningi sem hér er lagt til að farið verði í færir ríkið sér þessi réttindi einhliða og af því að ríkisstjórnin getur það í krafti lagasetningarvaldsins virðist hún vilja gera það. Bent hefur verið bent á að aðrar leiðir séu færar í þessum efnum, t.d. sú sem getið er um í umsögn Umhverfisstofnunar en hún er sú að ríkið héldi réttindunum hjá sér en innheimti leigu eða endurgjald, í samræmi við 3. gr. þjóðlendulaganna, af Landsvirkjun.

Frú forseti. Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Gnúpverjahreppur hefði ekki átt afréttinn sem um ræðir og því hvorki verið til þess bær að afsala þar landi né vatnsréttindum en í mínum huga vakna við lestur þessa máls spurningar um það hvort, þegar öllu er á botninn hvolft, Gnúpverjar hafi ekki haft til að bera næmari tilfinningu fyrir landinu sem í hlut á en Landsvirkjun og hvort þá sé bara ekki réttast að fela þeim þessi réttindi frekar en Landsvirkjun. Landsvirkjun gæti þá greitt þeim (Forseti hringir.) afnotagjald samkvæmt 3. gr. þjóðlendulaganna.

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli hv. þingmanna á því að þeir eru hér að fjalla um atkvæðagreiðsluna en ekki efnislega um málið sem er til atkvæða.)