132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:42]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er orðin alvarleg staða sem komin er upp þegar starfsfólk sem annast umönnun á dvalar- og hjúkrunarheimilum þarf að grípa til þeirra aðgerða að fara í setuverkfall til að vekja athygli á kröfugerð sinni um bætt kjör. Þetta eru að langmestu leyti konur og þær hafa fram að þessu verið þolinmóð starfsstétt, láglaunastarfsstétt, og við getum sagt okkur sjálf að þegar þessi starfsstétt grípur til slíkra úrræða þá er langt gengið.

Það er sama hvort þetta eru einkahlutafélög, sameignarhlutafélög eða hvort til slíkra aðgerða yrði gripið á dvalar- og hjúkrunarheimilum annarra, því það er alveg deginum ljósara að daggjöldin til dvalar- og hjúkrunarheimila eru of lág. Það sýnir sig að miklir erfiðleikar eru við rekstur þessara hjúkrunarheimila og flest þeirra eru rekin með halla. Við þær aðstæður er ljóst að þeir rekstraraðilar sem bera ábyrgð á rekstrinum hafa því miður ekki orðið við beiðnum þeirra starfsmanna sem verst eru settir til að hækka launin. Önnur aðferð til að bregðast við vandanum væri að fækka starfsmönnum, loka deildum, fækka sjúklingum sem sýnir að rekstraraðilar þessara stofnana eru í algerri sjálfheldu. Það er því á ábyrgð ríkisvaldsins að hækka daggjöldin til þeirra svo hægt sé að greiða mannsæmandi laun og þá sérstaklega til þeirra sem lægstu launin hafa en oft og tíðum þungann af starfseminni og mikla ábyrgð.