132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[10:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Staða efnahagsmála hefur verið mjög í umræðunni og kemur margt til. Hlutabréf hafa snarhækkað eftir áramót en snarlækkuðu síðan aftur og nálgast nú það gengi sem þau voru í um áramótin. Sömuleiðis hefur gengi íslensku krónunnar snarlækkað og í kjölfarið er hætta á verðbólguskoti. Fyrir almenning þýðir þetta hærra vöruverð og hærri greiðslur af verðtryggðum lánum. Þetta umrót er m.a. rakið til þess að erlendir fjármálasérfræðingar hafa beint sjónum sínum að veikleikum í íslensku efnahagslífi, svo sem miklum viðskiptahalla, innbyrðis eignatengslum fyrirtækja og banka og síðast en ekki síst mikilli skuldasöfnun þjóðarinnar. Skuldasöfnun er nánast hvar sem litið er í þjóðfélaginu. Skuldir heimilanna jukust gríðarlega á síðasta ári og þar af jukust dýrustu lánin, yfirdráttarlánin, um heila 14 milljarða kr.

Það eru skilaboð frá okkur í Frjálslynda flokknum til almennings í landinu, og hefur verið um árabil, að spara, en besta leiðin til þess er að borga niður skuldir. Það er varasamt að stofna til skulda meðan hætta er á að verðbólga rjúki af stað. Heildarskuldir þjóðarbúsins við útlönd eru nú þreföld árleg landsframleiðsla þjóðarinnar.

Frú forseti. Aftur að umróti síðustu vikna en það hefur verið rakið, eins og áður segir, til umsagna frá útlöndum þar sem varað er við blikum á lofti hvað varðar stöðu íslensks efnahagslífs. Við þessu þurfa stjórnvöld að bregðast af festu þar sem neikvæð umræða hefur leitt af sér að skuldugir íslenskir bankar hafa fengið verri vaxtakjör. Í sjálfu sér á það ekki að vera áhyggjuefni fyrir erlenda lánardrottna hver skuldasöfnunin er heldur miklu frekar hvort innlendir aðilar séu ábyggilegir hvað það varðar að greiða skuldina til baka.

Hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað sagt að þessi slæma einkunn erlendra banka sé nær eingöngu byggð á villandi upplýsingagjöf. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort og hvernig stjórnvöld ætli að bæta þar úr. Við í Frjálslynda flokknum lítum svo á að skýr skilaboð og aðgerðir stjórnvalda þurfi að koma til og það strax til þess að sporna við aukinni skuldasöfnun þjóðarbúsins.

Það hefur valdið miklum vonbrigðum að hæstv. forsætisráðherra, sem ber ábyrgð á stöðu mála, hefur ítrekað reynt að drepa umræðunni á dreif í stað þess að boða markvissar aðgerðir, m.a. með því að segja að það sé marklaust að horfa eingöngu á skuldir og viðurkenna að vissulega hafi skuldir aukist en afsaka það síðan með aukinni eignamyndun. Í því augnamiði að einfalda umræðuna ætla ég að halda mig við skuldir að frádregnum eignum. En þá kemur í ljós að þjóðarbúið hefur bætt verulega við sig skuldum umfram eignir og slagar nettóaukning síðasta árs hátt í útgjöld fjárlaga ríkisins eða 270 milljarða kr.

Hvað veldur? Hæstv. forsætisráðherra hefur bent í ýmsar áttir, svo sem til mikillar útlánaaukningar bankanna. Vissulega get ég tekið undir þá skýringu en hrein staða þeirra gagnvart útlöndum er neikvæð upp á 1.268 milljarða og hefur nettóstaða innlánastofnana aukist á einu ári um 500 milljarða kr. sem mun nálgast það að neikvæð staða bankanna við útlönd hafi aukist nettó um sem nemur útgjöldum einna og hálfra fjárlaga eins árs. Þetta er gríðarlega mikil skuldaaukning á einu ári, 500 milljarðar.

Hæstv. forsætisráðherra verður að fara að átta sig á því að hann er ekki kosinn til að benda á einhverja sökudólga heldur til þess að stjórna efnahagsmálunum. Eina aðhaldsaðgerðin í efnahagsmálum á umliðnum missirum hefur verið sú að hækka stýrivexti og síðast var það gert í morgun. Öllum ætti að vera orðið ljóst að það eitt vinnur ekki á rót vandans þar sem hækkun stýrivaxtanna hefur alls ekki slegið á þenslu og útlánaaukningu bankanna. Það er skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að það verði að beita meira aðhaldi og vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra í því augnamiði:

Kemur til greina að settar verði kvaðir á innlánsstofnanir um að hreinar skuldir erlendis fari ekki yfir ákveðin mörk? Og í öðru lagi: Kemur til greina að afnema verðtryggingu til þess að lánastofnanir verði varfærnari í útlánum og taki þar með á sig áhættu af hækkandi verðbólgu?

Með núverandi verðtryggingu mun hækkandi verðbólga nær eingöngu bitna á viðskiptavinum bankanna þar sem bankarnir eru tryggðir í bak og fyrir. Við í Frjálslynda flokknum erum sannfærð um að ef verðtryggingin yrði afnumin yrði erlend lántaka íslenskra banka miklum mun varfærnari en nú er.

Að lokum vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin hafi einhverjar aðrar sérstakar aðgerðir í efnahagsmálum til þess (Forseti hringir.) að auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs.