132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:07]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ef við skoðum fyrst eignastöðu einstaklinga þá eiga þeir í húsnæði um 2.500 milljarða, í lífeyrissjóðum 1.200 milljarða og svo skulda þeir 1.000 milljarða á móti þannig að þeir eiga u.þ.b. 3.000 milljarða í eignum nettó, sem eru 10 milljónir á hvert einasta mannsbarn í landinu, litlu börnin meðtalin. Þetta er ekki slæm staða. Þetta er mjög góð staða. Til viðbótar bætast eignir í hlutabréfum og opinberar eignir sem allar eru skuldlausar meira og minna. Þetta er virkilega fín staða.

Á móti erlendum skuldum koma eignir sem hafa verið að myndast, Kárahnjúkar. Það er reyndar því miður opinber fjárfesting sem mætt hefur verið með eignasölu, sem síðasti ræðumaður var að nefna, og erlendar eignir sem fyrirtæki hafa keypt fyrir erlendar skuldir, og eignirnar munu vonandi gefa arð og eru þegar farnar að gefa arð. Vaxtamunur í Danmörku er farinn að skila sér til Íslands. Það er fínt mál. Hins vegar vara ég einstaklinga við því að spenna bogann ekki hátt í eyðslu því að lántaka er ekkert annað veðsetning á framtíðartekjum hvers og eins og þar þurfa menn að passa sig.

Lánshæfismat bankanna hefur stórbatnað þannig að þeir eru komnir í samkeppni við ríkið á húsnæðismarkaðnum og það er kannski aðalvandinn. Áhættudreifing þeirra er miklu betri núna en var fyrir svona fimm árum vegna þess að þeir hafa keypt banka í útlöndum.

Ríkissjóður stendur þétt á bak við Seðlabankann í baráttunni við þá þenslu sem fylgir þessum miklu umsvifum því að afgangurinn á síðasta ári var 100 milljarðar, afgangur á ríkissjóði, vegna þess að salan á Símanum var ekki notuð til eyðslu heldur var hún öll lögð til hliðar, bæði erlendis og innan lands. Staðan er því mjög góð. Hins vegar verður að gæta sín vel þegar staðan er svona viðkvæm og menn þurfa að vinna vel úr þessu, það er ekki þannig að menn geti bara horft á þetta og gert ekki neitt. Það eru menn að gera, Seðlabankinn er að (Forseti hringir.) mæta þessu.