132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:13]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Vissulega er það rétt að skuldir íslenskra heimila hafa verið að hækka og skuldir þjóðarbúsins jafnframt en við verðum að líta til þess að eignir þessara aðila, eignir heimilanna hafa á síðustu fimm árum aukist um 1.200 milljarða kr. og eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins eru aðrir 1.200 milljarðar og við eigum eitt sterkasta lífeyrissjóðakerfi miðað við þau lönd sem við berum okkur venjulega saman við.

Jafnframt er það rétt að ríkissjóður er nánast skuldlaus, sem er auðvitað ákveðinn gæðastimpill á þann árangur sem núverandi ríkisstjórn hefur náð í ríkisfjármálum. Allt eru þetta hlutir sem skipta mjög miklu máli í þessari umræðu. Hins vegar ber að líta á það að erlendar skuldir, til að mynda bankakerfisins, hafa stóraukist í þeirri gengisaðlögun sem íslenska krónan hefur verið í á síðustu missirum, það er rétt. En við skulum líka hafa í huga að eignir íslenska fjármálakerfisins í erlendri mynt hafa aldrei verið meiri og styrkur íslenska fjármálakerfisins hefur verið staðfestur að undanförnu hjá matsfyrirtækjum. Það er mjög mikilvægt. En gengisaðlögunin, lækkunin á gengi íslensku krónunnar var nauðsynleg fyrir útflutningsatvinnugreinarnar, sem eru sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan, og það hefur verið kallað eftir því. Vissulega hefði það kannski mátt gerast á lengri tíma en þetta er staðreynd sem mun styrkja rekstrargrundvöll útflutningsatvinnugreinanna og ég fagna því.

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að við höldum áfram háu atvinnustigi í landinu því að fólk þarf vinnu til þess að standa undir öllum þessum skuldbindingum. Því er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma viðhaldi öflugri atvinnustefnu. Hvergi í heiminum er minna atvinnuleysi, við þurfum að flytja inn fólk til þess að vinna ýmsa vinnu sem Íslendingar vilja ekki vinna. Við verðum að halda uppi öflugri atvinnustefnu og sú stefna endurspeglast í stefnu ríkisstjórnarinnar.