132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:16]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Frú forseti. Skuldir heimilanna eru mjög miklar hér á landi og hafa farið talsvert hækkandi. Þrátt fyrir að eignirnar hafi hækkað á móti breytir það ekki þeirri staðreynd að fólk þarf að greiða af íbúðarhúsnæði sínu þannig að þó svo eign þeirra í húsnæði hafi hækkað verður það að greiða afborganir sínar með háum vöxtum og verðtryggingu.

Frú forseti. Mig langar að gera verðtrygginguna aðeins að umtalsefni vegna þess að hún veldur því að höfuðstóll lána heimilanna bólgnar út. Fólk horfir á hann bólgna út og það veldur því að það er hætt að horfa á heildarskuldir sínar og lítur frekar til þess hvað það þarf að borga mánaðarlega, þ.e. mánaðarlegar afborganir. Tengingin við heildarskuldirnar og áherslan á heildarskuldirnar og að halda þeim niðri er því ekki af þeim ástæðum nægilega mikil.

Það er því skoðun mín, frú forseti, að einhver raunhæf áætlun verði að fara að koma um hvernig við ætlum að afnema verðtryggingu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram mjög gott þingmál í þá veru. Mér nægir ekki að heyra frá hæstv. forsætisráðherra að hann telji til lengri tíma litið að afnema eigi verðtrygginguna. Ég hefði viljað heyra skýrar frá hæstv. forsætisráðherra hvenær hann sér slíkar aðstæður fyrir, hvenær hann telji að það geti komið til greina, hvaða aðstæður verði að vera til staðar og hvað hann er að gera til að skapa hér þær aðstæður sem til þarf svo hægt sé að afnema verðtrygginguna, vegna þess að ég tel það skipta mjög miklu máli og við séum núna að súpa seyðið af því að hafa haft verðtryggingu á húsnæði í allan þennan tíma.