132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:18]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg sama hvað við skoðum allar grunnstærðir varðandi íslenskt þjóðarbú. Ljóst er að Íslendingar hafa aldrei staðið sterkari, aldrei í sögunni og við stöndum sterkari en flestar aðrar þjóðir Vestur-Evrópu. Skuldir ríkisins um síðustu áramót voru 7% af vergri landsframleiðslu og ef við tökum gjaldeyrisforðann eins og oft er gert í almennum samanburði eða erlendum samanburði þá eru skuldir ríkisins núll.

Hitt er annað mál að við höfum verið með mikinn viðskiptahalla sem er mjög óheilbrigt. Vonandi verður hann leiðréttur því gengið er að leita jafnvægis og vonandi tekst að stoppa þá skuldaaukningu sem er hjá einstaklingum því það er óheilbrigt.

En það þarf sterk bein til að þola góða daga og núna ríður mikið á að ríkissjóður standi vörð um hinn glæsilega árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum. Til þess þarf að vera á móti ýmsu sem er vinsælt. Það þarf að vera á móti framkvæmdum sem eru vinsælar, það þarf fyrst og fremst að vera á móti óraunhæfum kauphækkunum sem gera mjög vart við sig. Menn þurfa að hafa þrek til að varðveita þann árangur sem náðst hefur.

En þegar við hlustum á þingmenn stjórnarandstöðunnar, virðulegi forseti, er mjög erfitt að átta sig á hvað þeir vildu sagt hafa eða hvaða ráð þeir hafa. Eina vikuna taka þeir upp að hér séu allt of háir skattar. Aðra vikuna koma þeir og segja: Það þarf endilega að bæta gríðarlega miklu við velferðarsamfélagið. Þetta er málflutningur þeirra, virðulegi forseti. Hver á að skilja hvað þeir vilja segja? Hverjar eru tillögur þeirra? Þær eru engar, aldrei neinar. Bara að reyna að vekja einhverja tortryggni um að eitthvað sé ekki eins gott og það er.