132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég einmitt yfir nettóaukningu, tók tillit til eigna bankakerfisins erlendis og skulda og það hafði orðið nettóaukning á skuldum og hefur aukist gríðarlega á einu ári. Ég fór yfir þær tölur fyrr í ræðu minni.

Ég fór einnig yfir það að hækkun stýrivaxta virðist ekki slá á þessa þróun. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra í framhaldinu hvort hann telji að sú þróun geti haldið áfram og til hvaða ráða eigi þá að grípa vegna þess að hæstv. ráðherra sló það út af borðinu að setja kvaðir á bankakerfið um að þessi nettóaukning færi ekki fram yfir ákveðin mörk. Ég er honum ekki sammála hvað það varðar. Einnig sagði hann að verðtryggingin kæmi ekki til greina eins og staða mála væri nú og ég vildi spyrja: Hvað er hægt að grípa til bragðs? Ekki getur þetta gengið svona áfram.

Einnig hefur staða heimilanna komið inn í umræðuna, að eignir þeirra hafi aukist gríðarlega. Hvers vegna er það? Við vitum það öll hér í salnum að það er vegna þess að ákveðin verðbólga hefur orðið á fasteignum. Ég get tekið sem dæmi húsið sem ég bý í í Skerjafirðinum. Verðgildi þess hefur kannski aukist um einhverjar milljónir en notagildi þess hefur akkúrat ekki neitt aukist, heldur einungis kostnaður, fasteignagjöld hafa hækkað og viðhald hefur aukist. Við skulum því taka stöðuna eins og hún er og vera ekki að búa til einhvern veruleika heldur skoða þetta í alvöru. Til hvaða ráða á að grípa til að taka á þeim vanda sem er uppi í efnahagsmálunum?

Í lok umræðunnar langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra varðandi afstöðu hans til hækkunar stýrivaxta bankans í morgun. Þegar bankinn hækkaði þá hóflega skömmu fyrir áramót þá fagnaði hann þeirri stefnubreytingu og nú væri fróðlegt að fá að heyra afstöðu (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til þeirrar hækkunar sem varð í morgun, frú forseti.