132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Kristjánssyni að mikilvægast væri að við gætum borgað þessar skuldir. Þetta er að sjálfsögðu algerlega rétt hjá honum og ég vænti þess að allir geti verið sammála um það. Það er það sem skiptir máli. Og það skiptir máli að bæði við og aðrir trúum því að við getum borgað þessar skuldir. Ég tel eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að við séum betur í stakk búin til að borga þessar skuldir en nokkru sinni fyrr. En það þýðir að menn verða að vera tilbúnir að sýna aðhald í ríkisfjármálum. Það þýðir ekki að ákveðnir þingmenn komi hér upp annan klukkutímann til að krefjast meiri útgjalda og svo fari þeir úr salnum og þá komi nýir þingmenn sem krefjist þess að það verði miklu meira aðhald. Þannig upplifir maður þetta á hverjum degi. Svo koma enn aðrir þingmenn sem krefjast þess að við förum helst ekki í neinar arðbærar framkvæmdir, hvorki í virkjunum né stóriðju vegna þess að það sé svo hættulegt. Það sé svo hættulegt að auka hagvöxtinn til framtíðar.

En hvað þýðir þetta á mæltu máli ef við getum ekki aukið hagvöxtinn til framtíðar? Það þýðir að við getum borgað minna af skuldunum. Það er því afar undarlegt oft og tíðum að upplifa þennan þingsal. Það er talað svo út og suður eftir því hvað stendur í blöðunum á morgnana að ég hef ekki upplifað það fyrr eins. Það verður að gera þær kröfur til hv. þingmanna og sérstaklega stjórnmálaflokka á borð við Samfylkinguna sem vill verða stór og sterkur stjórnmálaflokkur að eitthvert samræmi sé í málflutningnum og það sé einhver ballans í umræðum um efnahagsmál.