132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:27]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Miklar umræður hafa verið í vikunni um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins en til stendur samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umræðu að hlutafélagavæða fyrirtækið. Fyrir því eru ákveðin rök að mati okkar stjórnarliða og reyndar t.d. Samfylkingarinnar að slíkur rekstur geti átt við og sé heppilegri en núverandi rekstur. Rökstuðningurinn fyrir því er sá að Rarik er komið í samkeppni á smásölumarkaði og flestöll önnur smásölufyrirtæki. Ég get nefnt sem dæmi að Norðurorka, Hitaveita Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða eru í hlutafélagaforminu og það er samdóma álit þessara aðila að það form veitir sveigjanleika í rekstri. Rarik mun í framtíðinni geta brugðist við aðstæðum á markaði og þarf ekki að leita sérstakrar heimildar Alþingis á fjárlögum til að kaupa ákveðnar eignir því að á samkeppnismarkaði þarf oft að bregðast skjótt við. Því miður er það rekstrarfyrirkomulag sem nú er á Rafmagnsveitum ríkisins svifaseint og því er þessi breyting lögð til.

Hæstv. forseti. Ég fékk nokkrar spurningar við 2. umr. um málið en hafði ekki tök á að svara þeim öllum þá. Ein spurning kom frá hv. þm. Kristjáni L. Möller sem var á þá leið af hverju við biðum ekki með að samþykkja það frumvarp sem hér er til umræðu og biðum eftir setningu laga um opinber fyrirtæki sem nú er komið úr efnahags- og viðskiptanefnd samkvæmt heimildum mínum. Nú veit ég ekki hvort það frumvarp var tekið þar út í sátt en a.m.k. er búið að taka það mál út úr nefndinni og miklar líkur á að lög um opinber hlutafélög verði að lögum á þessu þingi. Þá er því til að svara að í 11. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Hlutafélagið skal taka til starfa 1. janúar 2006 …“ — Nei, fyrirgefið. Í breytingartillögu meiri hlutans mælir nefndin með því að hlutafélagið Rarik hf. verði sett á 15. júlí 2006. Það þarf ákveðna vinnu við að undirbúa hlutafélagið og stofnun fyrirtækisins. Gildistakan verður samhliða því. Ef frumvarp um opinber hlutafélög verður að lögum héðan í vor þá mun frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins taka gildi þar á eftir og heyra undir þau lög.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason beindi spurningu til mín um hvort komið hefði til álita að hluta Rarik niður, verða við beiðni Norðurorku og Skagfirðinga um að þeir gætu leyst til sín ákveðinn eignarhlut í þessum félögum. Það hefur ekki verið stefna stjórnvalda að hluta Rarik niður. Það er mjög mikilvægt að halda þeirri einingu öflugri og sterkri. Ég tel að það væri ekki mikil hagræðing í að hluta Rafmagnsveitur ríkisins niður í parta. Það hefur ekki verið stefna stjórnarflokkanna og stendur ekki til að búta þetta fyrirtæki niður, vítt og breitt um landið. Sú stefnumörkun liggur fyrir.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að réttindum nýrra starfsmanna. Eftir að hafa rætt við forsvarsmenn Rarik hf. bind ég vonir við að nýir starfsmenn eigi möguleika á því að ganga inn í A-hluta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er ekkert í þessum lögum sem bannar Rarik að semja þannig við starfsmenn sína. Reyndar held ég að það sé almennt viðurkennt að Rarik hafi komið mjög vel fram við starfsmenn sína. Það er ánægja innan fyrirtækisins, m.a. með aðdragandann að stofnun hlutafélagsins. Við vitum til þess að Rarik hefur samið við einstaka starfsmenn, m.a. til að bæta kjör þeirra og búa þá undir þessa hlutafélagavæðingu þannig að kjör þeirra skerðist ekki. Ég veit til þess að forsvarsmenn Rariks hafa bætt kjör ýmissa starfsmanna.

Það er sem sagt ekkert í frumvarpinu sem kemur í veg fyrir að fyrirtækin, varðandi nýja starfsmenn sem hafa starfað áður á vegum ríkisins eða verið undir kjarasamningum sem hafa verið tengdir BSRB eða öðrum stéttarfélögum, geti samið við starfsmennina um að þeir fái réttindi, t.d. úr A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ég hef trú á að forustumenn fyrirtækisins muni hér eftir sem hingað til sýna sveigjanleika gagnvart starfsmönnum ríkisins. Eftir viðtöl við forsvarsmenn þessa fyrirtækis bind ég vonir við að svo verði þótt ég geti að sjálfsögðu engu lofað í þeim efnum.

En þar með hef ég svarað helstu spurningunum sem beint var til mín. Þetta voru þær þrjár stóru spurningar sem mér fannst rétt að bregðast við í upphafi þessarar umræðu. Ég vonast til að þessari umræðu vindi fram og þetta frumvarp til laga um stofnun Rariks hf. verði að lögum frá Alþingi á þessu vori.