132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það ber að þakka framsögumanni iðnaðarnefndar fyrir þetta innlegg en ég verð að segja að eftir sem áður á eftir að svara grundvallarspurningunni í þessu máli. Hún er þessi: Hvað sýnir fram á að þessi lög séu nauðsynleg? Það hefur verið sagt í nefndarálitinu að hlutafélagaformið henti betur í því umhverfi sem starfsemin býr við. Í máli hv. þingmanns var talað um að það þyrfti að bregðast hratt við á samkeppnismarkaði.

Í athugasemdum með frumvarpinu er talað um að Rafmagnsveitur ríkisins eigi háspennulínur, dreifilínur, jarðstrengi, stofnlínur og sæstrengi, allt hluti sem Rafmagnsveiturnar þurfa að eiga. Auk þess eiga Rafmagnsveiturnar dreifikerfi í 50 þéttbýlisstöðum og 55 aðveitustöðvar. Rafmagnsveiturnar eiga 9 vatnsaflsvirkjanir í rekstri o.s.frv. Síðan er talinn uppi fjöldi fyrirtækja sem Rafmagnsveiturnar hafa eignast á undanförnum árum. Í greinargerðinni er síðan minnt á lagningu byggðalínu um landið, eign Rafmagnsveitnanna í henni o.s.frv. og minnt á sameiningar sem áttu sér stað með Héraðsvötnum ehf. o.s.fv.

Í efnisgreinum frumvarpsins er hvergi hægt að finna þessum orðum stað, hæstv. forseti sem framsögumaður nefndarinnar kom með áðan. Að gera þyrfti breytingar á umhverfinu svo fyrirtækin gætu þróast, átt viðskipti, keypt eða selt. Það verður að færa einhver rök fyrir þessu, hv. þingmaður. Það er ekki bara hægt að koma hér upp og segja: Þetta er nauðsynlegt vegna samkeppni en færa svo engin rök fyrir máli sínu.

(Forseti (DrH): Þingmenn eiga ekki að ávarpa hver annan í umræðunni.)