132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Rökin fyrir að gera þetta hafa komið skýrt fram í þessari umræðu um að hlutafélagavæða Rafmagnsveitur ríkisins, þ.e. fyrsta stig einkavæðingar til að búa þær undir sölu. Hér hafa komið fram tvíræðar yfirlýsingar framsóknarmanna en afdráttarlausar yfirlýsingar sjálfstæðismanna um að stefnt skuli að sölu. Framsögumaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hefur sagt að ríkið mundi eiga a.m.k. helminginn. Það er því alveg ljóst að hverju er stefnt, þ.e. einkavæðingu, markaðsvæðingu og sölu fyrirtækisins. Allt hitt rósamálið í kringum það eru bara útúrsnúningar.

En ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um áhersluna sem lögð er á samkeppni, þ.e. að hlutafé skapi samkeppnisumhverfi. Er það í þágu samkeppninnar að stuðla jafnframt að nánast hömlulausri samþjöppun? Hv. þingmaður sagði áðan að það væri markmið stjórnvalda að búa til stórar og sterkar einingar. Þess vegna vildu stjórnvöld ekki ræða um að láta ákveðna þætti sem núna eru komnir inn í Rarik, sumir teknir illu heilli, aftur til sveitarfélaganna. Hann taldi þurfa að skapa sterka einingu. Er það í anda samkeppnislaga að stuðla að fákeppni og samþjöppun? Eða er það markmið hv. þingmanns að áfram verði t.d. ráðist á Norðurorku, ráðist á Skagafjarðarveitur og fleiri slíkar héraðsbundnar veitur og þeim verði troðið inn í Rarik hf., sem hefur reyndar gerst undanfarið? Röksemdafærslan er öll í kross enda er markmiðið bara eitt: Einkavæðing og sala Rariks.