132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:44]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er búið að svara þessum spurningum hv. þm. Jóns Bjarnasonar áður í þessari umræðu. Í 3. gr. lagafrumvarpsins segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Öll hlutabréf í hlutafélaginu skulu vera eign ríkissjóðs. Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.“ Þetta er skýrt.

Jafnframt hafa komið fram yfirlýsingar um það, m.a. af minni hálfu, að ekki sé rétt að við afsölum okkur fyrirtækjum sem hafa yfir þessum orkuauðlindum okkar Íslendinga að ráða. Hv. þingmaður kýs að snúa út úr því. Ég fékk spurningu í 2. umr. um málið um hvort ég teldi útilokað um alla framtíð að einhver annar aðili gæti komið inn í rekstur þessa fyrirtækis. Hugsum okkur það ef það gæti verið báðum aðilum hagstætt að nýr aðili kæmi inn sem minnihlutaeigandi. Á að útiloka það um alla framtíð og segja bara: Nei, það kemur ekki til greina að skoða slíkt. Ég treysti mér ekki til þess. Mér finnst rangt að útiloka slíkt.

Sá þvergirðingsháttur vinstri grænna, að vilja ekki skoða hlutina og taka ekki rökum er með eindæmum, hæstv. forseti. Sú þjóðsaga sem hér birtist, um það að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ætli að fara að einkavæða þessi fyrirtæki, er ekki sönn. Það kveður ekkert á um það í flokksþingssamþykktum Framsóknarflokksins til að mynda eða í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að þetta sé stefnan. Þvert á móti er kveðið á um það í 3. gr. frumvarpsins að öll hlutabréf skuli vera í eigu ríkissjóðs. Öll hlutabréf. Svo kemur hv. þingmaður og reynir að telja þingheimi og þjóðinni trú um að það eigi að einkavæða fyrirtækið.

Þetta er dæmalaus málflutningur, hæstv. forseti, en það er sama hversu oft við komum upp, við stjórnarliðar, og teljum hv. þingmönnum Vinstri grænna trú um að ekki eigi að einkavæða þetta fyrirtæki, enda er skýrt kveðið á um það í lögunum að það eigi að vera að fullu í eigu ríkissjóðs, það mun ekkert stoða. Vinstri grænir hafa sjálfir talið sér trú um að einkavæða eigi þetta fyrirtæki.