132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það ber vott um veikan málstað hjá hv. þingmanni að tala í klisjum og upphrópunum. Ég virði heiðarleika þeirra talsmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa tekið þátt í umræðunni þar sem þeir segja hreint út að markmiðið sé að selja fyrirtækin. Það er spurt um verð. Við þekkjum alveg einkavæðingarferil Framsóknarflokksins. Við vitum alveg hverju er að treysta í hans orðum hvað það varðar. Við þurfum ekki að fá langa upphrópunarræðu frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um það. Við vitum alveg og þjóðin veit alveg hvaða traust hún getur borið til Framsóknarflokksins í þeim efnum. Mikil lifandis ósköp. Við þekkjum feril sölu Símans þannig að innantómar upphrópanir hjá hv. þingmanni breyta engu um trúverðugleika Framsóknarflokksins.

En hv. þingmaður svaraði ekki þeirri spurningu minni sem laut að þessum samkeppnisatriðum þegar hann sagði að annars vegar væri mikilvægt að styrkja og efla samkeppni í landinu, og það væri markmiðið með hlutafélagavæðingu Rariks, og hins vegar að því væri hafnað að styrkja héraðsbundnar veitur, rafveitur og hitaveitur, með því að gefa þeim kost á að fá til sín veituþætti Rariks eftir því sem hagkvæmt gæti talist. Hann svaraði því ekki hvers vegna það væri ekki hægt því þessar tvær yfirlýsingar, eins og í öllu öðru hjá hv. þingmanni og reyndar Framsóknarflokknum, stangast á. Annars vegar á að keyra saman samþjöppun og það höfð sem rök fyrir hlutafélagavæðingu Rariks en hins vegar á að efla samkeppni og þá er því hafnað að styrkja héraðsbundnar veitur sem geta í rauninni veitt bæði góða þjónustu og öfluga samkeppni. Það er sorglegt, frú forseti, hversu þessi röksemdafærsla er öll í kross.

En vill hv. þingmaður svara því hvaða samkeppnislegu rök eru gegn því að við höfum sterkar héraðsveitur og gæti verið markmiðið að styrkja þær enn frekar?