132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt til þess að varpa ljósi á þessa umræðu og þau rök sem dregin eru fram í málinu að ég lesi greinargerð þessa frumvarps frá orði til orðs svo að þau skilaboð hv. framsögumanns komi fram að hér sé verið að fara sérstaklega að tilmælum og tillögum starfsmanna Rafmagnsveitna ríkisins, það sé leiðarljósið í þessu frumvarpi eins og hann orðaði það hér áðan, hæstv. forseti: „Ótvíræð skilaboð starfsmanna um að nauðsynlegt væri að fara þessa leið“ o.s.frv. Í nefndarálitinu „að hlutafélagaformið henti betur“ o.s.frv.

Mér finnst vanta að þessu sé fylgt eftir með rökum. Það nægir mér ekki ef við erum í efnislegri og rökrænni umræðu um þetta mál að það gangi fram á fullyrðingum um það hvað starfsmennirnir hafi viljað og hvað starfsmennirnir hafi lagt til. Í frumvarpinu sjálfu eru athugasemdirnar svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Rafmagnsveitur ríkisins voru stofnaðar með raforkulögum 2. apríl 1946, en lögin komu til framkvæmda frá og með 1. janúar 1947. Þá voru felld úr gildi flest eldri lög um raforkumál nema vatnalögin frá 1923 sem fengu að standa óbreytt að mestu leyti. Rafmagnsveitur ríkisins tóku til starfa 1. janúar 1947.

Árið 1965 urðu þáttaskil í sögu orkumála landsins og Rafmagnsveitnanna með setningu laga um Landsvirkjun. Á árinu 1967 voru síðan raforkulögin endurskoðuð við samþykkt orkulaga á Alþingi. Með þeim voru gerðar ýmsar meiri háttar breytingar á stórum þáttum í raforkulögunum, sérstaklega þeim sem tengdust rannsóknum, framkvæmdum í virkjunarmálum og hagnýtingu jarðhita. Með orkulögunum var einnig gerð sú breyting að Rafmagnsveitur ríkisins og Héraðsrafmagnsveiturnar voru sameinaðar í eitt fyrirtæki. Það var gert að sjálfstæðu fyrirtæki sem heyrði undir stjórn þess ráðherra sem færi með raforkumál.

Á árinu 2003 urðu ný þáttaskil í sögu orkumála landsins með setningu nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, sem komu til framkvæmda þann 1. júlí 2003. Með setningu þeirra laga voru skapaðar forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.“

Ég ætla að endurtaka þessa setningu, hæstv. forseti: „Með setningu þeirra laga voru skapaðar forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.“ — Það þurfti því ekki hlutafélagavæðingu Rariks til þess.

„Þann 18. júní 2004 tóku gildi lög um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, og annast þar af leiðandi rekstur allra flutningsvirkja. Hófst rekstur þessi þann 1. janúar 2005.

Á árinu 1978 tók Orkubú Vestfjarða við rekstri Rafmagnsveitnanna á Vestfjörðum og árið 1985 tók Hitaveita Suðurnesja við rekstri Rafmagnsveitnanna á Reykjanesi.

Á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins búa um 49.100 manns sem njóta þjónustu fyrirtækisins.

Rafmagnsveitur ríkisins eiga og reka háspennukerfi sem er um 8.700 km að lengd. Hér er um að ræða rúmlega 5.800 km af dreifilínum á 11 og 19 kV sem byggðar hafa verið upp í sveitum landsins, ásamt um 1.600 km af 11 og 19 kV jarðstrengjum til sveita. Einnig er um að ræða stofnlínur á 33, 66 og 132 kV, svo og sæstrengi og jarðstrengi. Enn fremur eiga og reka rafmagnsveiturnar dreifikerfi í um 50 þéttbýlisstöðum og um 55 aðveitustöðvar.

Rafmagnsveiturnar eiga níu vatnsaflsvirkjanir í rekstri, flestar fremur litlar. Þær eru samtals um 19 MW og er Lagarfossvirkjun þeirra stærst, um 7,5 MW, en Skeiðsfossvirkjun næststærst, um 5 MW. Unnið er að því að stækka Lagarfossvirkjun um nær 20 MW og verður nýja vélin væntanlega gangsett á árinu 2007.

Þá eiga rafmagnsveiturnar um 30 dísilaflstöðvar með samtals um 40 MW afli auk tveggja kyndistöðva þar sem framleitt er heitt vatn með rafskautskötlum og 5 MW varaafl er til staðar.

Raforkuöflun fer fram með tvennum hætti, annars vegar með orkukaupum af Landsvirkjun og nokkrum smærri aðilum og hins vegar með eigin framleiðslu í vatnsaflsvirkjunum og varmaafls- og kyndistöðvum. Eigin raforkuframleiðsla er um 14% af allri raforkuöflun.

Á árunum 1972–1984 byggðu Rafmagnsveiturnar 132 kV byggðalínur, samtals 1.057 km að lengd, ásamt tólf aðveitustöðvum. Með byggðalínukerfinu voru öll raforkuveitusvæði landsins tengd saman í eitt landskerfi sem aukið hefur öryggi raforkunotenda landsbyggðarinnar verulega. Landsvirkjun tók yfir byggðalínukerfið til eignar og reksturs frá 1. janúar 1983 uns Landsnet hf. tók yfir þennan rekstur í ársbyrjun 2005. Rafmagnsveiturnar sáu hins vegar um rekstur og viðhald þess að hluta til á þessu tímabili.

Á undanförnum árum hafa rafmagnsveiturnar keypt nokkrar orkuveitur sem voru í eigu viðkomandi sveitarfélaga. Þær eru eftirfarandi:

1991 Hitaveita Hafnar í Hornafirði

1991 Rafveita og Hitaveita Siglufjarðar ásamt Skeiðsfossvirkjun

1992 Hitaveita Seyðisfjarðar

1995 Rafveita Borgarness

2000 Rafveita Hveragerðis

2001 Rafveita Sauðárkróks

2003 Hitaveita Dalabyggðar

2005 Hitaveita Blönduóss.“

Áður en ég held áfram lestrinum, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á því að í því sem ég hef fram að þessu lesið er ekki einu orði minnst á starfsmenn fyrirtækisins, tillögur þeirra að breyttu rekstrarformi eða að nokkur nauðsyn sé dregin fram af starfsmönnum fyrirtækisins um það að þetta hafi verið afar nauðsynlegt og brýnt mál. Mun ég nú halda áfram lestrinum, hæstv. forseti:

„Reynslan hefur þegar leitt í ljós að fjárfestingar þessar hafa ekki eingöngu verið arðbærar rafmagnsveitunum heldur einnig þeim sveitarfélögum sem hlut áttu að máli.

Árið 1999 stofnuðu rafmagnsveiturnar hlutafélagið Héraðsvötn ehf. ásamt heimamönnum í Skagafirði í þeim tilgangi að standa að virkjun Héraðsvatna við Villinganes. Þetta var unnt eftir að Alþingi samþykkti á vorþingi 1999 að heimila rafmagnsveitunum að gerast aðilar að hlutafélögum í orkurekstri“ — ég held að ég endurtaki þetta, hæstv. forseti: „Þetta var unnt eftir að Alþingi samþykkti á vorþingi 1999 að heimila rafmagnsveitunum að gerast aðilar að hlutafélögum í orkurekstri“ — sem sagt, þessar heimildir eru þegar til staðar — „og eiga þær 50% hlutafjár í Héraðsvötnum ehf.

Þá stofnuðu rafmagnsveiturnar einnig á sama ári hlutafélagið Sunnlenska orku ehf. ásamt Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi í þeim tilgangi að standa að virkjun jarðhita í og við Grændal. Eignarhluti rafmagnsveitnanna er 90%. Að auki eiga Rafmagnsveitur ríkisins hluti í sjö öðrum félögum.

Starfsmenn rafmagnsveitnanna voru 214 talsins í lok ársins 2004. Heildarorkusala Rafmagnsveitna ríkisins nam 1.252 GWst á árinu 2004. Smásala raforku nam 888 GWst, heildsala raforku 195 GWst og sala á heitu vatni 65 GWst.

Fjárhagsstaða Rafmagnsveitna ríkisins er traust og nam eigið fé fyrirtækisins í árslok 2004 tæpum 10,8 milljörðum kr. Árið 2004 var veltan 6.431 millj. kr. Rekstrargjöld vegna orkukaupa námu 4.924 millj. kr. en almenn rekstrargjöld 696 millj. kr. Rekstrarafgangur fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld nam 1.507 millj. kr. Handbært fé frá rekstri var 1.782 millj. kr. og fjárfestingahreyfingar námu 1.226 millj. kr. Rekstrarhagnaður nam 472 millj. kr. eftir að afskrifaðar höfðu verið um 1.067 millj. kr.

Sveitakerfin sem fjármögnuð voru af ríkissjóði eru talin með í afskriftagrunni fyrirtækisins þannig að rekstrarreikningurinn endurspeglar tekjuþörf vegna endurnýjunar þessara kerfa. Styrking og endurnýjun hefur hin síðari ár að mestu verið fjármögnuð af sölutekjum fyrirtækisins og hefur það lengst af valdið viðvarandi hallarekstri og hærri gjaldskrá en hjá öðrum rafveitum. Fjármögnun þessa félagslega þáttar í starfsemi rafmagnsveitnanna hefur nú verið leyst með lögum, nr. 98/2004, og hefur hið nýja hlutafélag því öflugan fjárhagslegan grunn og góðar horfur eru á að unnt sé að skila nauðsynlegu fé úr rekstri til áframhaldandi uppbyggingar fyrirtækisins og viðunandi arðsemi.

Röksemdirnar fyrir því að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins eru margvíslegar:

1. Meginröksemdin er sú að hlutafélagsformið er mun hentugra rekstrarform fyrir rekstur sem þennan en það rekstrarform sem nú er notast við, jafnvel þó að ríkissjóður sé einn eigandi að hlutafélaginu, einkum þegar litið er til þess meginsjónarmiðs sem raforkulögin frá 2003 byggja á, sem er að reyna að stuðla að samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt. Í löggjöf sem um það hefur verið sett er vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda (þ.e. eigenda), stjórnar og framkvæmdastjórnar. Þá eru reglur um endurskoðun og ársreikningsgerð, bæði rekstrarreikning og efnahagsreikning, mjög fastmótaðar og skýrar.

2. Ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins takmarkast við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst.

3. Með því að reka rafmagnsveiturnar í hlutafélagsformi verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárfestingar og nýjungar í rekstri verða auðveldari í framkvæmd og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri.

4. Öll önnur orkufyrirtæki hér á landi hafa valið þann kost að breyta rekstrarformi sínu yfir í hlutafélagsform að undanskildri Orkuveitu Reykjavíkur sem kaus fremur sameignarfélagsformið sem er sama rekstrarform og Landsvirkjun hefur notað. Um alla Evrópu hefur sama verið upp á teningnum, hlutafélagsformið hefur þar verið langvinsælasta rekstrarform orkufyrirtækja hin síðari ár.

5. Með því að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er jafnframt opnað fyrir þann möguleika að aðrar orkuveitur geti gengið inn í hlutafélagið og orðið hluthafar í því. Með því gæti náðst aukin hagræðing í orkudreifingu. Í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda. Ef ríkið gengur til samstarfs við aðra aðila um atvinnurekstur er hlutafélagsformið því sérstaklega viðeigandi.“

Þetta er niðurlagið á hinni almennu greinargerð, hæstv. forseti, og þegar hér hefur verið vitnað til starfsmanna fyrirtækisins, um að þeir hefðu lagt til þær breytingar sem væntanlega verða að lögum, ef ríkisstjórnin fær sínu ráðið, sem líklegt verður að telja, þá sýnist mér að aðalrökin komi fram í 5. lið þar sem talað er um hlutafélagavæðingu og sameiningu og ef ríkið gangi til sameignar eða sölu við önnur fyrirtæki. Ég vek þó athygli á því, hæstv. forseti, að þetta ákvæði um sameiningar og annað slíkt hefur verið heimilað Rafmagnsveitum ríkisins með sérstökum lögum, að gerast eignaraðili að öðrum fyrirtækjum. Þannig að þessa lagabreytingu hefði ekki þurft til þess, enda hefur fyrirtækið Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, miðað við upptalningu í þessari greinargerð, eignast hlut í mörgum félögum, yfirtekið þau eða sameinast þeim.

Ekkert af þeim rökum sem hér hafa verið lesin upp úr hinni almennu greinargerð, hæstv. forseti, dregur fram það sem framsögumaður iðnaðarnefndar hefur haldið fram, að allar tillögur um það að gera fyrirtækið að hlutafélagi væru einkum frá starfsmönnum komnar og væru ótvíræð skilaboð starfsmanna, eins og hér var haft á orði af hv. framsögumanni, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. Eftir að hafa lesið greinargerð frumvarpsins, hæstv. forseti, þ.e. almennu greinargerðina, þá er eini staðurinn sem vikið er að starfsmönnum, og hugsanlegum tillögum þeirra eða áherslum, það sem kemur fram á miðri bls. 4 þar sem segir: „Starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins eru 214 talsins í lok ársins 2004.“ Punktur, hæstv. forseti. Svo nota menn þessi rök sem aðalrök í málinu og leggja mikið út af því að þetta séu ótvíræð skilaboð starfsmanna um að breyta þurfi fyrirtækinu í hlutafélag þrátt fyrir að ég hafi bent á að það eru til sérstök lög um félagið sem heimila því að eignast hlut í öðrum félögum.

Þá skyldi maður ætla, hæstv. forseti, miðað við orð hv. framsögumanns, að rækilega hefði verið gerð grein fyrir þessum sjónarmiðum starfsmanna og tillögum þeirra í nefndaráliti meiri hlutans frá iðnaðarnefnd og ætla ég að lesa efnislega það sem þar segir annað en það hverjir komu fyrir nefndina. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er ríkisstjórninni falið að stofna hlutafélag sem taki við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Félagið verður að fullu í eigu ríkisins. Gert er ráð fyrir að eignir og skuldir núverandi fyrirtækis renni til hins nýja hlutafélags, Rariks hf. Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins verður allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku á öðrum rekstri greiddur af félaginu. Einnig mun Rarik hf. taka við einkarétti Rafmagnsveitna ríkisins til starfrækslu hita- og/eða dreifiveitna á orkuveitusvæði rafmagnsveitnanna.

Rökstuðningurinn fyrir þessum breytingum er m.a. að hlutafélagsform henti betur í því umhverfi sem starfsemin býr við og að reksturinn verði sveigjanlegri. Þá er talið að fjárfestingar og nýjungar í rekstri verði auðveldari í framkvæmd. Einnig takmarkast ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson og Katrín Júlíusdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.“

Þetta segir í nefndaráliti meiri hlutans. Vek ég nú athygli hæstv. forseta á því að hvergi nokkurs staðar er í nefndarálitinu minnst á þau rök sem hv. framsögumaður nefndarinnar dregur sérstaklega fram, að þetta hafi verið markverðar og ótvíræðar tillögur starfsmanna fyrirtækisins um að nauðsynlegt væri að breyta því í hlutafélag eða að það hafi verið skoðun starfsmanna fyrirtækisins að félagið yrði miklu samkeppnishæfara á samkeppnismarkaði og gæti brugðist hratt við — ráða mátti af máli hv. þingmanns að þar væri hann að vitna í orð starfsmanna fyrirtækisins sem eins og ég hef áður sagt koma hvorki fram í nefndaráliti með frumvarpinu né heldur í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar.

Síðan er sagt í nefndaráliti meiri hlutans að hlutafélög henti betur í því umhverfi sem starfsemin býr við. Ég tel að ég hafi fært fyrir því nokkur rök með því að lesa nefndarálitið í frumvarpinu að starfsemi Rariks hafi verið ágætlega lipur til þess að eignast hlut í öðrum félögum, sameinast öðrum félögum, yfirtaka þau eða semja um samruna fyrirtækja. Eins og ég gat um, og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, voru sett sérstök lög um að heimila Rarik að kaupa önnur hlutafélög þannig að þessi lög þurfti ekki til þess. (Gripið fram í: Það er rétt hjá þér.) Það þurfti ekki hlutafélagalög um hlutafélagavæðingu Rariks til að heimila að þetta hlutafélag mætti halda áfram að þróast og dafna, vonandi til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Ég verð því að segja, hæstv. forseti, að mér finnst málflutningur hv. framsögumanns nefndarinnar billegur þegar hann segir hér að þetta sé m.a. gert vegna ótvíræðra skilaboða starfsmanna um að breyta þurfi fyrirtækinu og fyrirtækið þurfi að geta brugðist hratt við á samkeppnismarkaði. Miðað við lýsingarnar í nefndarálitunum og sögu fyrirtækisins er ekki annað að sjá en fyrirtækið hafi þróað sig áfram eins og íslenskur markaður hefur kallað á hverju sinni. Ef lagabreytingar hefur þurft til þá hafa þær verið gerðar í hv. Alþingi, um að fyrirtækið mætti kaupa sig inn í önnur félög. Þeim rökum sem hér eru lögð á borð, varðandi það að starfsmennirnir hafi sérstaklega óskað eftir þessu formi, er hvergi fundinn staður í skjölunum sem við höfum fyrir framan okkur. Það er algerlega ljóst þegar maður skoðar hvað fyrirtækið á og hvað fyrirtækið hefur aðhafst á undanförnum árum og áratugum að það hefur haft býsna mikið frjálsræði og ekki er hægt að sjá að starfsemi þess hafi verið heft að neinu leyti.

Ég vil hins vegar minna á, hæstv. forseti, að frá því var sagt í frétt í blaði vestur á fjörðum, Bæjarins besta, sem gefið er út í Ísafjarðarbæ og dreift út um Vestfirði og reyndar víðar um land, hvað væri fyrirhugað í kjölfar þess að gera Rarik að hlutafélagi. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Í fréttinni segir frá stofnun hlutafélags til orkuframleiðslu og orkusölu í samvinnu við Rarik og hefur Landsvirkjun nú komið inn í verkefnið. Þrjú fyrirtæki, Orkubú Vestfjarða, Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun, munu stofna eitt fyrirtæki um smásölu og orkuframleiðslu.“

Síðan eru talin upp í fréttinni nokkur fyrirtæki sem fara inn í þennan pakka og þar segir, með leyfi forseta:

„Félagið yfirtekur sölustarfsemi Orkubús Vestfjarða og Rariks og verður sölugjaldskrá Orkubús Vestfjarða aðlöguð gjaldskrá félagsins í áföngum. Að minnsta kosti einn starfsmaður, sem vinnur að sölustarfsemi, verður staðsettur á Vestfjörðum.“

Og í öðru lagi kom fram í frétt blaðsins: „Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða munu áfram vera virkjanir fyrir hið nýja félag samkvæmt sérstöku samkomulagi og verður því ekki breyting á högum þeirra starfsmanna sem starfa nú við virkjanir Orkubús Vestfjarða.“ Þ.e. að því er snýr að starfsmönnum. Síðan er talinn upp hluti af eignum Rariks o.fl. og hvað skuli lagt inn í þetta fyrirtæki og m.a. nefndar Laxárstöðvarnar, hæstv. forseti.

Þegar maður hefur hlustað á málflutning formanns iðnaðarnefndar í málinu og skoðað þau skjöl og þann texta sem lagður hefur verið fram fyrir því að málið eigi að ganga hér fram og hvað sé áunnið við það þá finnast ekki þessi rök sem iðulega hefur verið vitnað til að því er varðar starfsmenn og ótvíræð skilaboð starfsmanna um hvað muni vinnast við þessa breytingu. En það finnast hins vegar líkindarök fyrir því að Orkubú Vestfjarða verði sameinað þessu fyrirtæki og síðan Landsvirkjun. Þá spyr maður, hæstv. forseti, ef það er stefnan: Hvernig samræmist það þeim markmiðum að um samkeppnisrekstur sé að ræða á raforkusölusviði eins og stefnt var að með raforkulögunum á sínum tíma fyrir tveim árum? Ég fer að halda að það sé dálítið hæpið að halda því fram að sameining allra fyrirtækja, sem ríkið á, í eitt hlutafélag verði til að efla samkeppni á orkusölusviði. Það verður eitthvað annað að koma til. Það er nefnilega það, hæstv. forseti, sem ég held að liggi undir steini. Það þarf nefnilega annað að koma til. Þegar sagt er að hlutafélagaformið henti betur og þegar sagt er í niðurlaginu í athugasemdum með frumvarpinu þegar það var lagt fram með svofelldum orðum, með leyfi forseta:

„Með því að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er jafnframt opnað fyrir þann möguleika að aðrar orkuveitur geti gengið inn í hlutafélagið og orðið hluthafar í því. Með því gæti náðst aukin hagræðing í orkudreifingu. Í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda. Ef ríkið gengur til samstarfs við aðra aðila um atvinnurekstur er hlutafélagsformið því sérstaklega viðeigandi.“

Þá er því lýst hér, hæstv. forseti, að markmiðið sé m.a. að selja hluti í raforkufyrirtækjunum og það ferli sem við erum hér með um hlutafélagavæðingu Rariks sé í rauninni skref á þeirri leið að einkaaðilar muni kaupa sig inn í raforkugeirann í auknum mæli og það verði auðveldara fyrir ríkið ef það gengur til samstarfs við aðila um þennan atvinnurekstur að hlutafélagaformið henti því sérstaklega.

Þannig er það, hæstv. forseti, og þess vegna dreg ég þá ályktun af málinu eins og það liggur núna fyrir að það sé markmiðið, að sameina þessi hlutafélög til að gera þau síðar söluvænni og þá muni auðvitað hlutafélagaformið henta betur til sölu á fyrirtækjunum eða fyrirtækjahlutum í slíku félagi. Þetta óttast ég, hæstv. forseti. Ég er andvígur því að raforkukerfi landsmanna verði hlutafélaga- og einkavætt ef það fylgir með í pakkanum. Ef menn væru ekkert annað að gera en bara hlutafélagavæða og ekki mætti finna neina aðra stefnumótun, en hana má því miður finna m.a. í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu, væri vafalaust hægt að styðja þetta mál. En eins og það er í pottinn búið og eins og einkavæðingaráráttan hefur verið hjá ríkisstjórninni er ekki fýsilegt fyrir þingmenn að mínu mati að styðja þetta mál, því miður. Ég óttast að hér sé stigið fyrsta skrefið í að selja hluti í raforkuframleiðslu landsmanna til einkaaðila og sá vegur sé varðaður hér. Það bendir til þess í nefndaráliti meiri hlutans þar sem bent er á að hlutafélagið henti betur o.s.frv. og ef það er síðan lesið saman við 5. lið í niðurlagi athugasemda með frumvarpinu upphaflega þegar það var lagt fram.

Hæstv. forseti. Með þeim varnaðarorðum ætla ég að ljúka máli mínu vegna þess að ég tel að ég hafi dregið efasemdir mínar fram og rök fyrir þeim, að hér sé flutt rétt mál og rétt framsetning þegar dregin eru inn áhrif og ábendingar starfsmanna sem sérstakur liður í þessu máli.