132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[14:29]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra var ekki mjög margorð um þetta mál, um breytingu á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, og mér fannst hún ekki leggja mikið í að útskýra hvers vegna lagt er til að taka upp ákvæði í 17. og 18. gr. sem voru felld niður á síðasta þingi, ef ég man rétt í lögum nr. 31/2005. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki skýra út hvers vegna það væri gert, hún vísaði eingöngu til þess að heildarendurskoðun laganna væri ekki lokið og því þyrfti að taka þessi ákvæði upp. Það var ekki einu sinni skýrt í máli hæstv. ráðherra út á hvað þau ganga þessi ákvæði í 17. og 18. gr. sem á að taka upp aftur en ef ég man rétt áttu þau að falla úr gildi 1. janúar sl.

Þau ákvæði sem hér um ræðir eru reglur um opinbera skráningu verðbréfa í Kauphöllinni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Út á hvað gengur heildarendurskoðunin sem seinkar svo mjög að ástæða er til að endurvekja þau ákvæði? Með því að taka þessi ákvæði, um reglur um opinbera skráningu verðbréfa í Kauphöllinni, upp aftur er þá verið að fresta því um ófyrirséðan tíma að flytja þennan þátt í starfsemi Kauphallarinnar yfir til Fjármálaeftirlitsins? Í frumvarpinu sem við fjöllum um virðist það sem á að endurvekja þau tvö ákvæði sem voru felld úr gildi ekki vera tímabundið, einungis er talað um að lög þessi öðlist þegar gildi. Ef um er að ræða einhverja endurskoðun sem dregist hefur hefði ég haldið að ráðherrann þyrfti að skýra það betur út hvenær þeirri endurskoðun lýkur og hvort þetta hafi þá áhrif á t.d. Evróputilskipunina sem felur í sér ýmis ákvæði sem snúa að Kauphöllinni, m.a. það að flytja þennan þátt í starfseminni yfir til Fjármálaeftirlitsins.

Ég vil í þessu sambandi vitna til orðaskipta sem ég og hæstv. ráðherra áttum hér fyrr á þessum vetri en þá vorum við að fjalla um starfsemi og hæfi stjórnenda Kauphallarinnar. Þá spurði ég hæstv. ráðherra hvort hún mundi í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins leggja til að ákvörðunarvald um opinbera skráningu og viðurlagaheimildir færðist frá Kauphöllinni til Fjármálaeftirlitsins en af hálfu Evrópusambandsins hefur verið unnið að því að draga úr hlutverki kauphalla á sviði yfirstjórnar og reglusetningar og sviði opinberrar skráningar, m.a. vegna hættu á vandamálum sem gæti skapast vegna hagsmunaárekstra.

Nú geri ég mér enga grein fyrir því hvort hæstv. ráðherra hlustar á mál mitt eða ekki vegna þess að hún er á kafi með sínum ráðgjöfum í hliðarsal en ég vænti þess að hún hlýði þá á þá fyrirspurn eða þær spurningar sem ég legg fyrir hana. Ráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Eftir að hinar nýju reglur Evrópusambandsins verða að fullu innleiddar munu kauphallir ekki sinna neinum opinberum verkefnum þar sem þau flytjast í hendur Fjármálaeftirlitsins.“

Ráðherra lýsir því, með leyfi forseta, í svari sínu:

„Í tilskipun ESB, nr. 2003/71, um lýsingar þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða skráð á skipulegan verðbréfamarkað, eru samræmdar kröfur um samningu, staðfestingu og dreifingu útboðs og skráningarlýsinga. Hluti tilskipunarinnar var innleiddur með lögum nr. 31/2005, um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti. Á grundvelli þeirra laga verða á næstunni settar reglugerðir um lýsingar og með þeim verður lokið við að innleiða tilskipunina.“

Ég held áfram að vitna til orða hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Samkvæmt tilskipuninni skulu lögbær yfirvöld njóta sjálfstæðis. Hér á landi er það Fjármálaeftirlitinu sem er falið það hlutverk að vera lögbært yfirvald. Kauphöll mun því ekki fara með opinbert vald. Hins vegar mun eftir sem áður hvíla á Kauphöll að hafa ákveðið eftirlit með útgefendum og viðskiptum í Kauphöll og beita agavaldi sem byggist á samningssambandi við útgefendur og kauphallaraðila. Tilskipunin hefur þau áhrif að umsjón með staðfestingu á lýsingum vegna skráningar verðbréfa í Kauphöll færist til Fjármálaeftirlitsins. Með staðfestingu er átt við athugun á því hvort lýsing sé fullnægjandi, þar með talið hvort upplýsingar í lýsingu séu samræmdar og skýrar.“

Ég beini nú þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hvenær er áformað að þessi þáttur í starfsemi Kauphallarinnar flytjist yfir til Fjármálaeftirlitsins?

Ég vil líka spyrja hæstv. viðskiptaráðherra einnar spurningar þó að hún tengist ekki beint þessum yfirflutningi til Fjármálaeftirlitsins. Hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu til mín, með leyfi forseta:

„Til greina kemur að Kauphöllin setji á fót sérstakar aganefndir í sama tilgangi en ekki hefur verið rætt um að gera slíkt fyrirkomulag að lagaskyldu.“

Aganefndir tengjast stjórnarháttum fyrirtækjanna, sem ég hef mjög gagnrýnt, og ég vil spyrja hvað því líður og mun síðar í máli mínu koma inn á stjórnarhætti hjá Kauphöllinni. Í því sambandi mun ég spyrja um þessar aganefndir; hvort verið sé að undirbúa að setja á fót sérstakar aganefndir eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra.

Í tilefni af þessari umræðu um Kauphöllina og framlengingu á umræddum ákvæðum og óvissu um það hvenær þessi starfsemi í Kauphöllinni, um opinbera skráningu og lýsingar, fari yfir til Fjármálaeftirlitsins, vil ég líka vitna í mjög gagnmerka grein sem Áslaug Björgvinsdóttir skrifaði í Morgunblaðið 27. nóvember 2003. Þar fjallar hún einmitt um nauðsyn þess að þessi þáttur í starfsemi Kauphallarinnar flytjist yfir til Fjármálaeftirlitsins.

Í þessari grein segir Áslaug fyrst, með leyfi forseta:

„Ekki verður betur séð en að sú niðurstaða við setningu kauphallalaga árið 1998, að fela einkavæddum kauphöllum yfirstjórn opinberrar skráningar og eftirlit, án lögfestingar reglna um málsmeðferð, hafi leitt til óvissu um að hverju marki sé gætt sjálfstæðis og hlutleysis við ákvörðunartöku Kauphallarinnar.“

Síðar í þessari grein segir Áslaug, með leyfi forseta:

„Margir virðast ganga út frá að staða Kauphallarinnar að íslenskum rétti og víðtækt ákvörðunarvald og eftirlit á sviði opinberrar skráningar verðbréfa sé sambærilegt við það sem gerist erlendis, t.d. við kauphöllina í London og Kaupmannahöfn. Svo er ekki. Í framhaldi af hlutafélagavæðingu kauphalla, afléttingu takmarkana á eignarhaldi og sums staðar í framhaldinu skráningu kauphallanna sjálfra í kauphöll, hefur þróunin víða erlendis verið sú að fela opinberu stjórnvaldi hlutverk hins lögbæra yfirvalds. Að þessu leyti er ljóst að skipan yfirstjórnar opinberrar skráningar og eftirlits með markaðnum hér er nokkuð ólík því sem gerist í mörgum nágrannalöndum okkar.“

Þetta er auðvitað staðfesting á því, en hér er um gagnmerkan fræðimann að ræða, að það sé eðlilegt að flytja þetta yfir til Fjármálaeftirlitsins.

Áslaug vitnar í þessa nýju tilskipun Evrópusambandsins og segir, með leyfi forseta:

„Við setningu kauphallalaga var hvorki gerð sú krafa í tilskipunum Evrópusambandsins að hið lögbæra yfirvald á sviði opinberrar skráningar væri stjórnvald eða að stjórnsýslureglur giltu um það að öðru leyti. Samkvæmt núgildandi tilskipunum Evrópusambandsins er ekkert því til fyrirstöðu að fela einkaréttarlegum aðila, eins og kauphöll í hlutafélagaformi, að gegna hlutverki hins lögbæra yfirvalds. Breytinga er hins vegar að vænta. Af hálfu Evrópusambandsins hefur verið unnið að því að draga úr hlutverki kauphalla á sviði yfirstjórnar og reglusetningar á sviði opinberrar skráningar, bæði vegna hættunnar á vandamálum vegna hagsmunaárekstra en einnig til að fækka aðilum sem koma að þessum málum og þar með einfalda rammann um verðbréfamarkaði.“

Áslaug segir líka, með leyfi forseta:

„Samkvæmt nýrri tilskipun Evrópusambandsins um útboðs- og skráningarlýsingar, nr. 2003/71, sem var samþykkt í júlí sl., verður aðgreiningin milli svokallaðra opinberra skráðra verðbréfa og annarra skráðra verðbréfa afnumin, en tilskipunin mun taka til bæði verðbréfa sem boðin eru með almennu útboði og verðbréfa sem skráð verða á skipulegum verðbréfamörkuðum. Hugtakið opinber skráning missir þar með þýðingu sína og í staðinn munu sömu reglur gilda um skráningu verðbréfa á hvers konar skipulegum verðbréfamörkuðum.

Sú breyting samkvæmt tilskipuninni sem skiptir máli hér er að gerð verður sú krafa til aðildarríkjanna að hin lögbæru yfirvöld innan þeirra séu stjórnvöld og njóti algers sjálfstæðis gagnvart aðilum markaðarins þannig að forðast megi hagsmunaárekstra. Það má nefna að samkvæmt upphaflegum drögum framkvæmdastjórnarinnar átti algerlega að setja loku fyrir það að kauphallir færu með verkefni hins lögbæra yfirvalds. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rökstuddi það með því að þar sem kauphallir eru nú reknar sem fyrirtæki í hagnaðarskyni leiði það til hagsmunaárekstra og því ættu þær ekki að bera ábyrgð á opinberum verkefnum eins og að staðfesta útboðs- og skráningarlýsingar.

Tilskipunin heimilar þó ákveðið framsal á verkefnum hins lögbæra yfirvalds til annarra aðila, þar á meðal einkaréttarlegra aðila eins og kauphalla. Skilyrði er þó að það eigi sér stað samkvæmt ströngu ferli þar sem skýrt er hvaða verkefni séu framseld og skilyrði meðferðar þeirra. Framsalið þarf m.a. að hafa að geyma skilmála sem skyldar viðkomandi aðila sem tekur við verkefninu að vera skipulagður þannig að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra og samkeppnishindranir.“

Tilvitnun lýkur í þennan kafla. Síðan kemur kafli sem ég tel mikilvægan í þessari grein Áslaugar undir fyrirsögninni: Ætti að losa Kauphöllina undan hlutverki hins lögbæra aðila?

Þar segir:

„Það er ljóst að skipan yfirstjórnar opinberrar skráningar og eftirlits á verðbréfamarkaði skiptir verulegu máli um hvort tekst að skapa skilvirkan og öflugan verðbréfamarkað með þátttöku innlendra sem erlendra fjárfesta. Nauðsynlegt er að endurskoðun fari fram á skipan þessara mála hér á landi og yfirstjórn opinberrar skráningar verðbréfa og eftirliti verði skipað þannig að traust ríki á verðbréfamarkaði.“

Nú bið ég ráðherrann að taka eftir:

„Ekki er ástæða til að bíða gildistöku framangreindrar tilskipunar Evrópusambandsins. Eins og fram hefur komið er engin nauðsyn að sá aðili sem rekur viðskiptakerfi fari jafnframt með ákvörðunarvald um hverjir fullnægi á hverjum tíma kröfum um opinbera skráningu verðbréfa. Auk framangreindra leiða til úrbóta sýnist mér vert skoðunar að færa ákvörðunarvald um opinbera skráningu og viðurlagaheimildir frá Kauphöllinni og fela það Fjármálaeftirlitinu. Með því að fela einum aðila eftirlitið og ábyrgðina væri skipulagið einfaldara og einnig værum við laus við umræðuna um nauðsyn þess að afmarka verkaskiptingu Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar.“

Ég spyr, virðulegi forseti, og beini máli mínu til ráðherra: Er eitthvað því til fyrirstöðu að færa þennan þátt í starfseminni strax yfir til Fjármálaeftirlitsins? Ef svo er, hvað er það sem hindrar það?

Fyrir utan þessa spurningu og spurningu um aganefndina vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra um það sem fram hefur komið, t.d. í máli Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns KB-banka. Hann telur að það eigi að vera búið að sameina Kauphöll Íslands norrænum kauphöllum en í grein í Morgunblaðinu 18. mars er haft eftir Sigurði, með leyfi forseta:

„„Það er raunar erfitt að skilja,“ sagði Sigurður, „hvers vegna ekki hefur þegar verið gengið frá samruna Kauphallarinnar við norrænar kauphallir.““

Nú hef ég ekki kynnt mér þetta mál en spyr ráðherrann um afstöðu hennar til þessara hugmynda, að sameina Kauphöll Íslands norrænum kauphöllum. Ég hef ekki kynnt mér neitt kosti þess og galla en ég spyr um afstöðu ráðherra til þess. Er ástæða til að huga að því?

Loks vil ég, virðulegi forseti, víkja að stjórnarháttum í Kauphöllinni sem ég hef gagnrýnt mjög. Ég tel ástæðu til þess hér í lokin, á þeim mínútum sem ég hef, að ræða aðeins um stjórnarhætti í Kauphöllinni sem við hæstv. ráðherra höfum reyndar gert hér fyrr á þessum vetri og mér fannst ég ekki fá fullnægjandi upplýsingar hjá hæstv. ráðherra — ég hef reyndar lagt fram aðrar fyrirspurnir til ráðherrans. Ég verð að segja að svar sem kom fyrir nokkrum dögum frá Kauphöllinni var í raun hreinn dónaskapur við þingið. Þinginu var sýnd lítilsvirðing með því svari. Það var fyrirspurn um ýmsa þætti í starfsemi Kauphallarinnar, m.a. hvernig framfylgt hefði verið leiðbeinandi fyrirmælum og ýmsum ákvæðum sem snúa að gegnsæi í stjórn Kauphallarinnar, m.a. hvort gerðar hefðu verið athugasemdir af hálfu Kauphallarinnar við leiðbeinandi tilmæli um stjórnarhætti o.s.frv. Það var einnig spurt um það hvaða aðilar hefðu farið að leiðbeinandi reglum um skipan óháðra aðila í stjórnir fyrirtækjanna og skipun starfskjaranefndar, sem er mjög veigamikill þáttur í gegnsæi í starfsemi Kauphallarinnar. Eftir á þriðja mánuð kom svar frá hæstv. ráðherra, sem var raunar svar Kauphallarinnar, um að ég gæti bara farið á heimasíðu Kauphallarinnar og lesið mér til um þetta.

Þetta er auðvitað dónaskapur í ljósi þess að fyrirspurnin hafði legið fyrir í níu vikur. Ég verð æ meira hugsi, virðulegi forseti, yfir þeim stjórnar- og starfsháttum sem viðgangast í Kauphöllinni. Það hefur verið vakin athygli á því opinberlega, og ég hef gert það hér á þingi, að það sé óeðlilegt hvernig skipan stjórnar Kauphallarinnar er. Í stjórn Kauphallar eiga ekki sæti óháðir aðilar heldur eru þetta aðilar sem eru tilnefndir af þeim félögum sem eru skráð í Kauphöllinni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé mjög óeðlilegt og í stjórn Kauphallarinnar eigi óháðir aðilar að eiga sæti. Það á að vera óheimilt að lykilstjórnendur þeirra félaga sem skráð eru í Kauphöllinni eigi sæti í stjórn.

Ráðherra var ekki sammála mér um það en það er mín staðfasta skoðun að þetta sé mjög óeðlilegt. Þeir aðilar sem eiga sæti í stjórn Kauphallarinnar fjalla líka um opinberar skráningar þeirra sem sækja um aðild að Kauphöllinni, sem eru í kannski mörgum tilfellum samkeppnisaðilar þeirra, þannig að fyrirkomulagið er mjög óeðlilegt. Áður en ég fór að skoða vel málefni Kauphallarinnar hélt ég satt að segja að mikið gegnsæi væri í starfsemi hennar. En mér finnst á þeim svörum sem ég hef fengið á þessum vetri, sem hafa komið frá Kauphöllinni, að það sé torsótt og erfitt að fá svör sem um er beðið og ekki sé það gegnsæi sem ég hélt í starfseminni. Auk þess finnst mér ýmsir stjórnarhættir sem þar viðgangast mjög óeðlilegir, m.a. að sömu aðilar séu í stjórn Kauphallarinnar og í stjórn Verðbréfaskráningar.

Virðulegi forseti. Ég hef beint nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra sem ég vona að hún svari þannig að það skýri betur þetta mál sem hæstv. ráðherra leggur fyrir þingið. Mér fannst ráðherra ekki gera það nægilega vel í sinni framsögu. Ég vænti þess, virðulegi forseti, að við þessa 1. umr., áður en málið fer til nefndar, liggi fyrir svör við þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hæstv. ráðherra.