132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[14:54]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög einföld spurning sem ég er að leggja fyrir ráðherrann en það virðist erfitt að fá svar við henni. Er eitthvað í þeim reglum sem við erum að taka hér upp aftur og verið er að endurvekja varðandi opinbera skráningu verðbréfa sem hefur áhrif á að því verði seinkað að flytja þessi mál yfir til Fjármálaeftirlitsins þar sem þau eiga heima?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær áætlar ráðherrann að hægt sé að flytja þennan mikilvæga þátt, skilja hann frá Kauphöllinni og flytja hann yfir til Fjármálaeftirlitsins? Mér er alveg kunnugt um frestinn sem þessi tilskipun gefur í því efni. En þetta er spurning um vilja ráðherrans, hvað ráðherrann vill í þessu efni. Leggjast aðilar í Kauphöllinni gegn því að þessi mikilvægi þáttur um opinbera skráningu verði fluttur yfir til Fjármálaeftirlitsins eða hvað kemur í veg fyrir það? Hver er vilji ráðherrans í því efni?

Mér finnst alveg útilokað að búa við það að þeir aðilar sem stjórna í Kauphöllinni eigi að ráða ferðinni. Þingið á auðvitað að ráða ferðinni í því hver fer með þetta opinbera vald. Það á að vera Fjármálaeftirlitið og ég tel enga ástæðu að bíða eftir því. Ég spyr: Hefur ráðherrann látið á það reyna við aðila í Kauphöllinni að þetta verði flutt og það sem fyrst? Eða á að nýta allan þann tíma sem tilskipunin heimilar í nokkur ár í viðbót? Það finnst mér ótækt.

Mér finnst það erfitt, virðulegi forseti, að umræðu um þetta mál sé lokað án þess að fá svar við þessu og óska eftir að ráðherrann svari því, hún getur komið hér upp aftur, til hvers hugur ráðherrans sjálfs stendur í þessu efni. Við megum ekki láta aðila í Kauphöllinni ráða ferðinni í þessu máli.