132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[14:57]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek hér aftur til máls af því mér finnst hæstv. ráðherra sýna mér dónaskap. Mér finnst hæstv. ráðherra sýna mér dónaskap þegar ég beini einfaldri fyrirspurn til hennar sem mér finnst skipta miklu máli í þessu sambandi fyrir framgang frumvarpsins og ekki er hægt að svara því þegar spurt er um afstöðu ráðherrans til þess að flytja þennan þátt yfir til Fjármálaeftirlitsins. Ég heyri að ráðherrann er ekki á móti því.

Ætlar ráðherrann að nýta allan þann tíma sem hún hefur samkvæmt tilskipuninni og láta þennan þátt vera hjá Kauphöllinni eins lengi og stætt er? Þetta er einföld spurning, virðulegi forseti, og ég skal ekki tefja tíma þingsins með að fara inn á ýmislegt fleira sem ég gæti varðandi starfsemi Kauphallarinnar en ég óska eftir að ráðherrann svari þessari einföldu spurningu.

Ég á eftir að fjalla um þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd. Hæstv. ráðherra telur að hér sé ekkert stórmál á ferðinni. Það er þó ekki nema ár síðan ákveðið var að fella úr gildi 17. og 18. gr. laganna um reglur um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll. Nú ári seinna er komið og beðið um að þetta verði afturkallað og þessar greinar haldi áfram gildi sínu, m.a. af því heildarendurskoðun laganna er ekki lokið. Ráðherrann kom bara upp í stuttu andsvari og greindi t.d. ekkert frá því hvað felst í þeirri endurskoðun. Hvað er það nákvæmlega sem verið er að skoða?

Ég geri ráð fyrir að málið hafi verið þannig vaxið þegar við felldum brott þessi ákvæði á síðasta þingi að þá hafi verið stefnt að því að heildarendurskoðun laganna væri lokið á þessum tíma. Ráðherrann getur ekki upplýst okkur um það hve lengi þau ákvæði þurfi að vera í gildi sem fella átti úr gildi um síðustu áramót, eða 1. janúar 2006. Hvað er það í þessari heildarendurskoðun sem tefur svo málið að ekki er hægt að ljúka henni og að endurvekja þarf þessi ákvæði?

Virðulegi forseti. Mér finnst leiðinlegt að þurfa að endurtaka hér aftur og aftur spurningar mínar en ég get heldur ekki liðið að hæstv. ráðherra sýni þinginu og þeim þingmanni sem hér stendur þá lítilsvirðingu að virða hann ekki svars. Nú má vel vera að hæstv. ráðherra hafi enga skoðun á þessu máli. Ef hæstv. ráðherra segir það verð ég auðvitað að virða það svar. Ég vil reyna að fá ráðherrann til að svara þessu af því að mér finnst þetta mikilvægt, í mínum huga er mikilvægt hvernig með þennan þátt í starfsemi Kauphallarinnar er farið. Ég stóð því hér upp, virðulegi forseti, án þess að hafa ætlað mér að tefja hér störf þingsins á einn eða annan hátt til að reyna að fá hæstv. ráðherra til að svara þessari spurningu og af því að ég heyri að hæstv. ráðherra hefur beðið um orðið ætla ég að víkja úr ræðustól í þeirri von að fá svar við spurningu minni.