132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[15:02]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég sé engu nær. Er hægt að svara því hvenær þessari heildarendurskoðun á að ljúka? Hvenær stefnir hæstv. ráðherra að því að ljúka þessari heildarendurskoðun? Er það rétt skilið hjá mér að menn hafi stefnt að því að henni yrði lokið núna á þessu ári eða áður en ákvæði í 17. og 18. gr. féllu úr gildi? Hvað telur ráðherra að þessi ákvæði, sem fella átti úr gildi í 17. og 18. gr., þurfi að standa lengi? Er hægt að svara þeirri spurningu? Ráðherra hlýtur að vita, af því að fella átti þetta ákvæði úr gildi núna 1. janúar, hvað hún hugsi sér að þessi ákvæði þurfi að standa lengi og hún hlýtur að geta svarað því hvenær hún stefni að því að heildarendurskoðun laganna ljúki.

Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á þessum málum og nefndarvinnan og endurskoðun er væntanlega á hennar vegum og hún hlýtur að hafa sent eitthvert erindisbréf um það hvenær ljúka eigi þessu verki.

Varðandi lýsingartilskipunina hefur það þó komið fram að ráðherra telur ekki endilega þörf á því að nýta þann aðlögunartíma sem er í þeirri tilskipun fram til 2009. Ráðherra vill hafa samband við markaðinn, ég skil það vel en það hefur náttúrlega tekið nokkurn tíma. En mun ráðherra, svo að ég orði það nú pent, reyna að hraða þeim störfum og samráði við markaðinn þannig að hægt sé að fullgilda eða uppfylla þessa lýsingartilskipun fyrr og ekki sé nýttur allur þessi frestur? Það er mjög mikilvægt í mínum huga að fá fram afstöðu ráðherrans til þess. Ég geri hér, virðulegi forseti, lokatilraun til þess í þessu síðasta andsvari sem hæstv. ráðherra hefur.