132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[15:06]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að þessum orðræðum okkar viðskiptaráðherra verði að ljúka þannig að sú sem hér stendur sé hundóánægð með svör hæstv. ráðherra. (Viðskrh.: Það er nú ekkert nýtt.) Ja, af hverju ætli ég sé óánægð með svör ráðherrans? Af því að ráðherra getur ekki talað skýrt í þessu efni. Í mínum huga eru það stórmál sem snúa að Kauphöllinni, starfsemi hennar, og hafa veruleg áhrif á markaðinn. Ég hefði gjarnan viljað eiga meiri orðastað við ráðherra um það og fá fram skýrari afstöðu til þessara þátta sem ég tel svona mikilvæga. Ráðherra kemur upp í lokin og talar um að í því felist kostnaður að flytja þennan lýsingarþátt yfir til Fjármálaeftirlitsins. Þá er það komið í ljós en varla er það fyrirstaðan í málinu.

Ég held, virðulegi forseti, að við stöndum frammi fyrir því að fyrirstaðan í málinu sé sú að aðilar á markaði, aðilar í Kauphöllinni, vilji hafa þetta allt hjá sér, vilji ráða yfir þessu öllu og líka þeim þáttum sem eðli máls samkvæmt ættu að vera í höndum opinbers valds eins og Fjármálaeftirlitsins. Þeir vilja ríkja þarna, deila og drottna, sitja þarna og neita þinginu um eðlileg svör við fyrirspurnum varðandi stjórnarhætti sem þar eru sem maður hélt að ættu að vera gegnsæir. Allt vekur þetta tortryggni um að þarna þrífist ákveðnir hagsmunaárekstrar. Ég hef ekki heyrt að hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af því. En mín niðurstaða er sú, virðulegi forseti, að það sé markaðurinn sem standi gegn því að þessi mál séu með eðlilegum og heilbrigðum hætti. Þeir vilja gína yfir þessu öllu og hafa þetta allt hjá sér til að geta vélað eins og þeir vilja um þessi mál í staðinn fyrir að þetta sé í eðlilegum farvegi varðandi þennan lýsingarþátt eins og hann á að vera hjá Fjármálaeftirlitinu.