132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn.

620. mál
[15:09]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn sem er 620. mál þingsins. Því er ætlað að leysa af hólmi eldri lög, nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Þegar lögin um vog, mál og faggildingu voru sett var stefnt að því að ganga til EES-samningsins en á þeim tíma sem liðinn er hefur fengist reynsla er sýnir að endurskoðunar er þörf og einnig hefur annað lagaumhverfi breyst. Gildandi lög og ný drög sem hér liggja fyrir taka til mælitækja vegna almennra hagsmuna, svo sem réttmætra viðskiptahátta, verndunar umhverfis og heilsu og réttaröryggis.

Þá ber sérstaklega að vekja athygli á að eigi síðar en í lok apríl þessa árs, 2006, ber að innleiða í íslenskan rétt mælitækjatilskipun ESB sem oftast er nefnd MID-tilskipunin. Það er ný aðferðatilskipun sem nær til 10 flokka mælitækja og er gert ráð fyrir efni hennar í þessum frumvarpsdrögum.

Efni þessa frumvarps nær einnig til þátta eins og grunnkrafna til mælitækja, samræmismats og markaðseftirlits sem eru nauðsynlegir til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar sem aðili að EES-samningnum innan þess heildarkerfis fyrir mælingar, vottanir og prófanir sem mótað hefur verið af ESB og er orðið hluti af aðferðafræði þess til að gera frjálst flæði vöru mögulegt. Aðrir alþjóðasamningar, svo sem um gagnkvæmar viðurkenningar á mælingum, vottunum og prófunum milli ESB og USA, byggjast einnig á þessum sömu þáttum og þess vegna er stöðugt að verða mikilvægara að mælifræðikerfi landsins sé trúverðugt. Frumvarpið nær því eðlilega einnig til undirstöðuþátta þess að mælingar geti verið réttar en þeir undirstöðuþættir eru mælieiningar, mæligrunnar, kvarðanir og rekjanleiki.

Verði frumvarpið að lögum er stefnt að því í fyrsta lagi að tryggja að hér á landi sé notað mælifræðikerfi sem nýtur trausts. Í öðru lagi að stuðla að nægilega nákvæmum og réttum mælingum og í þriðja lagi að vernda hagsmuni neytenda, öryggi viðskiptahátta, réttarvernd, líf og heilsu.

Frumvarpinu er skipt í tíu kafla og þykir rétt að drepa á helstu efnisþætti. Í I. kafla frumvarpsins eru ákvæði um gildissvið, hlutverk og stjórnsýslu Neytendastofu og eru þau nákvæmari en sambærileg ákvæði í núgildandi lögum. Þá eru þar ýmsar nýjar skilgreiningar sem eru nauðsynlegar, m.a. vegna ákvæða Evrópuréttarins.

II. kafli frumvarpsins fjallar um mælieiningar og mæligrunna og er hann að mörgu leyti sambærilegur gildandi ákvæðum í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, en ákvæði kaflans eru þó gerð fyllri en gert var við setningu núgildandi laga.

Í III. kafla eru ákvæði um sölu- og markaðssetningu mælitækja sem byggjast á ákvæðum tilskipunarinnar og þeirri meginreglu hennar að ekki megi hindra viðskipti með mælitæki enda uppfylli þau grunnkröfur sem tilskipunin kveður á um.

Í IV. kafla er fjallað um notkun mælitækja og auk þess staðfest sú meginregla sem nú er að finna í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, en það er á ábyrgð eigenda mælitækis að þau mælitæki sem hann notar og eru eftirlitsskyld skuli færð til skoðunar eða reglubundinnar löggildingar í samræmi við ákvæði laga.

Í V. kafla er fjallað um hvernig gengið er úr skugga um niðurstöður mælinga og ákvæði um aðferðir til að tryggja rétt magn fyrir forpakkaðar vörur og um eftirlit þannig að heimilt sé að e-merkja þessar forpakkningar sem valfrjálst er fyrir framleiðendur að nýta sér til að skapa aukið traust í viðskiptum og efla samkeppnishæfni á hinum opna markaði EES.

Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um framkvæmd eftirlits og á því byggt að fela einkaaðilum framkvæmd eftirlits í eins miklum mæli og unnt er.

VII. kafli frumvarpsins geymir ákvæði um löggilta vigtarmenn. Í VIII. kafla er ákvæði um faggilta kvörðunarþjónustu. Í IX. kafla er fjallað um eftirlitsgjald sem ætlað er að standa undir þeim stjórnsýslukostnaði sem fylgir framkvæmd með ákvæðum þessa frumvarps og við ákvörðun á fjárhæð gjaldsins hefur verið byggt á kostnaðargreiningu og því eftirliti sem nauðsynlegt er að starfrækja. Í X. kafla er fjallað um fagráð atvinnulífsins og Neytendastofu en það er nýmæli. Mikilvægt er að tryggt sé að samstarf eigi sér stað milli Neytendastofu og ýmissa aðila í atvinnulífinu sem hafa verulega hagsmuni af því að þekkja og hagnýta sér mælifræði í starfsemi sinni og einnig er mikilvægt að hafa samráð við fulltrúa neytenda.

Í XI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um viðurlög.

Að svo stöddu tel ég ekki ástæðu til að rekja efni einstakra greina frumvarpsins nánar. Ég vil þó taka fram að unnið hefur verið að þessu frumvarpi um langan tíma og hefur verið litið til lagaframkvæmda nágrannalanda við þá vinnu sem og reynslu Löggildingarstofu á árum áður. Við gerð frumvarpsins var haft náið samstarf við sérfræðinga á Neytendastofu og einnig fulltrúa úr atvinnulífinu, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Fiskistofu. Þá var náið samráð haft við fjármálaráðuneyti og ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur. Þeim voru send drög að frumvarpinu í samræmi við ákvæði laga.

Í svarbréfi ráðgjafarnefndarinnar, dags. 17. febr. sl., kemur m.a. fram að nefndin telur að markmið væntanlegra laga samræmist fyrirkomulagi sambærilegra málaflokka í nágrannalöndunum og reglum settum á alþjóðavettvangi þar um.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.