132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:28]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eðlilegt mönnum að reyna að gera hluti skynsamlega og á sem hagkvæmastan hátt og þess vegna teldi maður eðlilegt að ef einhvers staðar er jarðhiti þá leiti maður að honum og reyni að virkja hann. En þá kemur stóri bróðir og skekkir myndina. Hann með niðurgreiðslu á raforku er búinn að skemma þennan hvata, þennan eðlilega hvata sem menn hafa til að nýta jarðhita og önnur úrræði, rekavið eða eitthvað slíkt, til húshitunar og menn eru í rauninni að setja á laggirnar ákveðið styrkjakerfi til að vinna á móti hinu styrkjakerfinu. Þetta er náttúrlega dálítið galið, frú forseti. Ég gagnrýni aftur og aftur að menn skuli fara þessa leið. Þetta sýnir einmitt hversu skaðlegir styrkir geta verið og eru yfirleitt alltaf. Styrkir eru yfirleitt alltaf skaðlegir og skemma samkeppni og annað slíkt.

Mig langar til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hversu lengi hún ætlar að halda áfram á þessari braut, af hverju hún skoði það ekki hvort ekki eigi að hætta við niðurgreiðslu á raforku til húshitunar og taka upp einhver önnur kerfi eins og t.d. hreinlega búsetustyrki þar sem menn fái greiðslu fyrir að búa á ákveðnum stað og síðan geta þeir leitað að þeirri orku sem ódýrust er eða einangrað hús sín betur ef það reynist vera hagkvæmast.