132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en þau valda að vissu leyti vonbrigðum. Maður ól von í brjósti um að nýr hæstv. félagsmálaráðherra hefði skoðað þetta mál og séð að varla væri hægt að láta það frá sér með þeim ágöllum sem á því eru. Við í stjórnarandstöðunni gerum hér lokatilraun til að breyta þessu frumvarpi. Ég hafði vonast til að hæstv. ráðherra mundi taka undir þetta eða a.m.k. skoða fyrir næsta þing. Nú útilokar ráðherrann það ekki. Maður verður að halda í þá von en ég fullvissa ráðherrann um að það verður mikil óánægja með gildistöku laganna og með að þetta nái ekki til foreldra sem fætt hafa fötluð börn eða langveik fyrir gildistöku laganna. Ég er sannfærð um það að það verður.

Ráðherrann boðaði einnig að hann gæti hugsað sér að breyta þessu varðandi framkvæmdaraðilann, að það verði Tryggingastofnun en ekki Vinnumálastofnun. Hann ætlar að skoða það í samráði við Umhyggju og það er gott.

Ég vil þó fagna því sem hæstv. ráðherra sagði um það að á næstu dögum verði flutt á Alþingi frumvarp um tekjutengingu atvinnuleysisbóta, að bæturnar hækki og taki mið af tekjum. Um það eru menn að tala ef ég skil málið rétt. Hann fær örugglega góða aðstoð til að það mál verði að lögum á þessu vori en ég vil spyrja: Hvað inniheldur þetta frumvarp? Getur ráðherra gert grein fyrir því í stærstu dráttum við hvaða tekjur er miðað og hvernig það á að líta út? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Mun hann sjá til að þessu frumvarpi, ef að lögum verður, verði breytt líka, hvort sem það verður á þessu þingi eða því næsta, þannig að greiðslurnar taki líka mið af tekjum foreldranna?